Stórhýsi bíður örlaga sinna

Engin starfsemi er lengur í húsinu en aðeins nokkrir mánuðir …
Engin starfsemi er lengur í húsinu en aðeins nokkrir mánuðir eru síðan það iðaði af lífi. mbl.is/Golli

Hið mikla hús Íslandsbanka á Kirkjusandi í Reykjavík stendur nú autt og yfirgefið og bíður örlaga sinna. Mygla fannst í húsinu í fyrra og í framhaldinu var ákveðið að flytja starfsemi bankans í annað húsnæði. Útibú bankans á Kirkjusandi og Suðurlandsbraut sameinuðust síðastliðinn mánudag og þá var Kirkjusandur kvaddur. Síðustu starfsmenn Íslandsbanka yfirgáfu húsið en þeir voru 450 þegar þeir voru flestir. Höfuðstöðvar Íslandsbanka fluttu fyrir nokkru í Norðurturninn við Smáralind.

Íslandsbanki er eigandi hússins á Kirkjusandi en ekki liggur ennþá fyrir hvað verður gert við húsið, að sögn Eddu Hermannsdóttur, samskiptastjóra bankans. „Nú þegar starfsmenn eru farnir úr húsinu verður það skoðað betur og ákvörðun tekin í framhaldi. Við vonum að þetta muni skýrast fyrir sumarið,“ segir Edda.

Komið hefur fram í fréttum að óvíst sé að það borgi sig að gera við húsið og það verði hreinlega rifið. Þá kom fram þegar Íslandsbanki birti uppgjör fyrir fyrri hluta ársins 2016 að virði húnsæðisins hafi verið fært niður um 1,2 milljarða vegna skemmdanna.

Á Strætólóðinni, við hlið Íslandsbankahússins, mun rísa fjölbýlishús með 300 …
Á Strætólóðinni, við hlið Íslandsbankahússins, mun rísa fjölbýlishús með 300 íbúðum. Einnig verður atvinnustarfsemi á lóðinni. Teikning/ASK arkitektar

Sagan nær langt aftur í aldir

Samkvæmt Þjóðskrá Íslands er eignin Kirkjusandur 2 alls 8.788 fermetrar. Skrifstofubyggingin er 7.719 fermetrar og vörugeymsla er 1.069 fermetrar. Samanlagt brunabótamat er 2.267 milljónir króna.

Verði niðurstaðan sú að húsið verði rifið verður til verðmætt byggingaland á besta stað í borginni.

Saga svæðisins sem húsið stendur á nær langt aftur í aldir, samkvæmt samantekt Íslandsbanka. Nafnið Kirkjusandur kemur fyrst við sögu árið 1379 og er heiti yfir strandlengjuna frá Rauðarárvík að Laugarnesi. Frá Kirkjusandi hefur líklega verið útræði frá fornu fari og á fyrri hluta 20. aldar var þar umfangsmikil fiskverkun og tvær bryggjur. Greint var á milli Ytri-Kirkjusands og Innri-Kirkjusands og voru mörkin nálægt því sem Kringlumýrarbraut gengur nú til sjávar. Á Ytra-Kirkjusandi kom Th. Thorsteinsson upp fiskverkunarstöð árið 1900 og ári seinna setti Jes Zimsen á fót fiskverkun á Innra-Kirkjusandi ásamt bræðrunum Birni og Þorsteini Gunnarssonum. Félögin reistu margvíslegar byggingar og mannvirki í kringum fiskvinnsluna á svæðinu, þar á meðal þurrkhús, geymsluhús, vélaskúra, þvottahús og verbúðir. Auk þess settu víðáttumikil stakkstæði svip á svæðið.

Árið 1948 fluttu togaraútgerðarfélögin Júpíter hf. og Marz hf .til Reykjavíkur, en þau voru upphaflega stofnuð í Hafnarfirði af Tryggva Ófeigssyni og fleiri. Félögin ráku hraðfrystihús ásamt saltfisk- og skreiðarverkun á Innra-Kirkjusandi á árunum 1950-1973. Árið 1950 sótti félagið um leyfi að byggja stórt, steinsteypt fiskverkunarhús við fjöruborðið. Húsið var hækkað og byggt við það í nokkrum áföngum og var á sínum tíma stærsta frystihús landsins.

Í kjölfar eldgossins í Heimaey árið 1973 keypti Ísfélagið í Vestmannaeyjum frystihúsið og aðrar eignir á Kirkjusandi og rak til ársins 1975 þegar Samband íslenskra samvinnufélaga keypti húseignirnar við Kirkjusand. Sambandið var umsvifamikið í Laugarnesi á 7. og 8. áratugnum og reisti meðal annars stórhýsi fyrir kjötvinnslu austan við Kirkjusand. Á 9. áratugnum hóf Sambandið umfangsmiklar breytingar á frystihúsinu við Kirkjusand sem var stækkað, hækkað, klætt og fyrirhugað að breyta í skrifstofuhús undir nýjar höfuðstöðvar Sambandsins. Niðurrif ýmissa mannvirkja á svæðinu var hluti af þessum breytingum.

Árið 1988, þegar framkvæmdir voru komnar á gott skrið, tók að halla undan fæti hjá Sambandinu og um svipað leyti og skrifstofuhúsnæðið var fullbúið þurfti Sambandið að láta húsið af hendi. Íslandsbanki eignaðist síðar húsið og aðrar eignir á lóðinni og flutti þangað höfuðstöðvar sínar árið 1995.

Ný byggð á Strætólóð

Strætisvagnar Reykjavíkur voru með bækistöðvar sínar á Kirkjusandi í rúmlega hálfa öld eða fram til ársins 2001. Á svæði Strætó hefur verið skipulögð atvinnu- og íbúðabyggð. Þarna er áformað að reisa 300 íbúðir og alls 50.000 fermetra atvinnuhúsnæði. Borgarráð samþykkti í lok ársins 2016 viljayfirlýsingu sem tryggir leigufélagi ASÍ og BSRB heimild til að reisa 63 íbúðir á Kirkjusandi. Á sama stað munu Félagsbústaðir einnig byggja.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert