Úr kennslustofunni í listina

Marta Ólafsdóttir, myndlistarkona og fyrrverandi kennari, sýnir verk sín um …
Marta Ólafsdóttir, myndlistarkona og fyrrverandi kennari, sýnir verk sín um helgina, en hún segist einkum sækja innblástur til náttúrunnar. „Ég enda alltaf í einhverju sem tengist náttúrunni,“ segir hún. mbl.is/Árni Sæberg

„Þetta byrjaði allt með því að ég fór í myndlistarskóla á sínum tíma svo ég yrði betri í að teikna á töfluna,“ segir Marta Ólafsdóttir, myndlistarkona og fyrrverandi líffræðikennari, en þegar blaðamaður náði tali af henni var hún önnum kafin við að undirbúa opnun sýningar í Hannesarholti í miðbæ Reykjavíkur.

Marta lauk BS-prófi í líffræði frá Háskóla Íslands árið 1974 og síðar prófi í kennslu- og menntunarfræðum frá Háskólanum í Uppsölum í Svíþjóð auk þess að bæta við sig námi í vatnalíffræði. Þegar Marta sneri aftur hingað til lands árið 1983 hóf hún að kenna við Kennaraháskóla Íslands.

„Ég er hins vegar hætt að kenna núna – á að baki 40 ára starfsferil sem kennari,“ segir hún, en auk þess að vinna í Kennaraháskólanum kenndi Marta nemendum í Fjölbrautaskólanum í Garðabæ og Menntaskólanum við Hamrahlíð.

Spurð hvort hún sakni kennsluáranna kveður Marta nei við. „Ég hætti á hárréttum tíma, en mér fannst hins vegar afar gaman að kenna. Svo var ég allt í einu orðin 65 ára og þá var orðið ágætt að hætta.“

Listin hefur fylgt Mörtu lengi

Marta hóf nám í teikningu í kvöldskóla Myndlistarskóla Reykjavíkur árið 2005, en vatnslitirnir fönguðu hug hennar stuttu síðar er hún var við nám í Myndlistarskóla Kópavogs. Hún segir þó listina hafa fylgt sér allt tíð. „Móðir mín var mikil listakona svo að ég var alin upp í slíku umhverfi,“ segir hún.

Aðspurð segist Marta einna helst horfa til náttúrunnar eftir innblæstri. „Ég hef verið að glíma við allt mögulegt í myndlistinni en ég enda alltaf í einhverju sem tengist náttúrunni – kannski er það vegna þess að ég er líffræðingur að mennt,“ segir hún og bætir við að hún eigi nokkra uppáhaldsstaði til að mála. „Ég bý við Elliðavatn og hef því fallegt útsýni þar yfir og í átt að Bláfjöllum. Svo hef ég málað mikið á Snæfellsnesi, enda lengi í sveit þar á sínum tíma, en einnig finnst mér mjög gaman að mála á Þingvöllum á haustin.“

Hekla gaus í lokin

Þá hefur eldfjallið Hekla átt hug Mörtu að undanförnu. „Ég var á námskeiði hjá breskum málara sem skildi ekki af hverju fólk væri að mála Heklu því henni fannst fjallið ekki fallegt og erfitt að mála það. Ég ákvað því að mála Heklu frá ýmsum sjónarhornum og svo endaði hún með því að gjósa hjá mér,“ segir Marta og hlær við.

Töfrar náttúrunnar

Fyrsta sýning Mörtu Ólafsdóttur, sem ber heitið Töfrar náttúrunnar, er haldin í Hannesarholti í miðbæ Reykjavíkur. Opnun hennar fer fram í dag, laugardaginn 25. febrúar, frá klukkan 15 til 17. Á sýningunni, sem stendur til 22. mars næstkomandi, gefst gestum og gangandi færi á að virða fyrir sér fjölbreyttar vatnslitamyndir, sem sýna meðal annars Þingvelli, eldstöðina Heklu og Snæfellsnes.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert