Kristján Viðar Viðarsson: Vafasamt að yfirheyrslur hafi haft sönnunargildi

Kristján Viðar Viðarsson kemur til réttarhaldanna á áttunda áratugnum handjárnaður …
Kristján Viðar Viðarsson kemur til réttarhaldanna á áttunda áratugnum handjárnaður við lögreglumann.

Endurupptökunefnd hefur fallist á ósk setts ríkissaksóknara um að dómur yfir Kristjáni Viðari Viðarssyni í svonefndu Guðmundar- og Geirfinnsmáli verði tekinn upp að nýju hvað varðar sakfellingu um tvö manndráp af gáleysi.

Kristján Viðar var sakfelldur fyrir að hafa ásamt öðrum orðið Guðmundi Einarssyni og Geirfinni Einarssyni að bana árið 1974. Hann var einnig fundinn sekur um rangar sakargiftir og þjófnaðarbrot og dæmdur í 16 ára óskilorðsbundið fangelsi.

Fram kemur í úrskurði endurupptökunefndar, að settur ríkissaksóknari hafi óskað eftir því við nefndina í desember 2015, að mál Kristjáns yrði tekið upp aftur, honum til hagsbóta. Kristján Viðar hafi innt eftir stöðu málsins í maí á síðasta ári en að öðru leyti ekki látið það til sín taka. Hann afþakkaði einnig að fá skipaðan talsmann.

Í úrskurði nefndarinnar kemur m.a. fram það mat nefndarinnar, að verulegar líkur séu á að andlegt ástand Kristjáns hafi verið orðið svo bágborið síðustu mánuði ársins 1976 og framan af árinu 1977, vegna langrar einangrunarvistar og persónubundinna eiginleika hans, að vafasamt sé hvort skýrslur frá þeim tíma um yfirheyrslur yfir honum hjá lögreglu og fyrir dómi hafi haft nokkurt sönnunargildi.

Til marks um slæma andlega heilsu hans megi nefna tvær sjálfsvígstilraunir á þessum tíma og framburð hans um að hafa orðið tveimur mönnum til viðbótar að bana og að amma hans hafi tekið þátt í að hluta annað líkið í sundur. Í dómi Hæstaréttar sé ekki vikið að áhrifum fjölmargra, mótsagnakenndra og ólíkindalegra framburða Kristjáns og bágborins andlegs ástands hans á mat á trúverðugleika framburða hans. Virðist hann ekki hafa fengið að njóta þess vafa sem að þessu leyti var til staðar um sönnunargildi játninga hans.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert