Víkingur sendi út neyðarkall

Margir voru viðstaddir þegar tekið var á móti nýju uppsjávarskipi …
Margir voru viðstaddir þegar tekið var á móti nýju uppsjávarskipi HB Granda, Víkingi AK 100, við hátíðlega athöfn á hafnarbakkanum á Akranesi fyrir rúmu ári. mbl.is/Styrmir Kári

Víkingur AK 100 sendi út neyðarkall í gærkvöldi þegar nótin fór í skrúfuna og skipið rak að landi. Nótin á Víkingi AK 100, sem var við loðnuveiðar við Vestmannaeyjar, fór fyrst í hliðarskrúfuna með þeim afleiðingum að það drapst á henni. Þá rak skipið að nótinni sem fór þá einnig í afturskrúfuna og Víkingur stefndi stjórnlaust að landi en bálhvasst var á svæðinu. 

Neyðarkall var sent til skipa á svæðinu sem náðu að koma togvír í Víking og halda honum stöðugum á meðan veiðarfærin voru dregin inn í skipið. Víkingur gat þá siglt undir eigin vélarafli til Vestamannaeyja til að skera nótina úr skrúfunum og athuga með veiðarfæri.  

„Það er aldrei gott að vera svona nálægt landi og í þessum vindi að hafa ekki stjórnunina,“ segir Albert Sveinsson, skipstjóri Víkings, spurður hvort þetta hafi verið tvísýnt. Hann bendir á að það sé ýmislegt hægt að gera í þessum aðstæðum eins og að setja út akkeri. Albert segist aldrei hafa lent í sambærilegu atviki áður.

Landar 1.150 tonnum af loðnu í stað 16 hundruð

Víkingur AK 100 er rétt rúmlega ársgamall og er með nýjustu skipunum í skipaflotanum.

Hann siglir nú til Vopnafjarðar þar sem skipið landar um 1.150 tonnum af loðnu. Stefnt var að því að ná að minnsta kosti 15 til 16 hundruð tonnum. Þetta setur því talsvert strik í reikninginn því eftir löndun fer skipið í viðgerð til Reykjavíkur áður en það getur haldið út að nýju.  

Albert sagðist ekki vita hversu mikið tjónið er, slíkt kæmi í ljós við nánari skoðun í Reykjavík.  

Víkingur AK 100 er á loðnuveiðum og landar á Vopnafirði.
Víkingur AK 100 er á loðnuveiðum og landar á Vopnafirði. mbl.is/Jón Sigurðarson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert