Fleiri fá fyrir hjartað í snjómokstri

Það borgar sig að fara hægt af stað í mokstri …
Það borgar sig að fara hægt af stað í mokstri fyrir kyrrsetufólk. mbl.is/Golli

Fleiri útköll vegna hjartaáfalls og ofreynslu hafa borist neyðarlínunni í dag en venjulega. Fólk virðist fara sér full geyst þegar það mokar húsagötur eða losar fasta bíla. 

„Það gengur ekki jafn-vel í öllum tilfellum þegar fólk reynir á sig allt í einu eftir kannski margra ára hvíld. Þeir sem eru alla jafna í góðu formi moka sig í gegnum heilu göturnar,“ segir Sigurbjörn Guðmundsson, varðstjóri slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins, í samtali við mbl.is. Hann bendir á að það sé alltaf vissara að fara sér hægt af stað og láta ekki kappið bera sig ofurliði. 

Ekki er hægt að tilgreina hversu mörg tilfellin eru né hvernig þetta skiptist á milli kynja. Fyrir utan þetta virðist dagurinn vera nokkuð eðlilegur hvað varðar fjölda útkalla. „Það gengur hins vegar allt miklu hægar. Við erum samt mjög þakklát fyrir fólk að virða þau tilmæli að fara ekki af stað á vanbúnum bílum. Þess vegna komumst við leiðar okkar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert