Fluttir á sjúkrahús eftir árekstur

Sjúkrabílar frá Akureyri og Húsavík fluttu ökumenn og farþega á …
Sjúkrabílar frá Akureyri og Húsavík fluttu ökumenn og farþega á Sjúkrahúsið á Akureyri þar sem þeir hlutu aðhlynningu. Enginn hlaut alvarleg meiðsl. Kort/Map.is

Þriggja bíla árekstur varð á þjóðveginum við Fosshól skammt frá Goðafossi á fjórða tímanum í dag. Nokkrir voru fluttir með sjúkrabifreiðum á Sjúkrahúsið á Akureyri til aðhlynningar. Fólkið hlaut hins vegar ekki alvarleg meiðsl. Varðstjóri hjá lögreglunni á Akureyri segir hins vegar í samtali við mbl.is að þetta hafi verið áfall fyrir suma.

Tilkynning um áreksturinn barst klukkan 15:46. Talið er að ein bifreið hafi þurft að stöðva í umferðinni og tvær bifreiðar sem komu á eftir hafi rekist saman með fyrrgreindum afleiðingum. 

Að sögn lögreglu hefur færðin í umdæminu verið góð. Það var hins vegar mugga eftir hádegi, snjóföl en hálka á flestum vegum. Ástandið í umferðinni hafi almennt verið gott.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert