Fönnin gleður hunda og menn

Hrafnhildur Gunnarsdóttir ásamt mæðgunum Krummu, í bláu, sem er tveggja …
Hrafnhildur Gunnarsdóttir ásamt mæðgunum Krummu, í bláu, sem er tveggja ára, og Birnu, í rauðu, sem er átta ára. Þær eru af samójed-kyni. mbl.is/Stefán Einar

Fannfergið sem herjaði á borgarbúa í gær mátti nýta til margra góðra hluta í bjartviðrinu. Hrafnhildur Gunnarsdóttir, kvikmyndagerðarmaður og formaður Félags kvikmyndagerðarmanna, var snemma dags á ferli við Hádegismóa, þar sem ritstjórnarskrifstofur Morgunblaðsins eru til húsa, til þess að nýta daginn sem best til útiveru áður en haldið var á Edduverðlaunin sem veitt voru í gærkvöldi.

„Það er lífsnauðsynlegt að komast út í guðsgræna náttúruna áður en maður fer að væflast um á rauðum dreglum,“ segir Hrafnhildur létt í lund í samtali við blaðamann Morgunblaðsins, en Hrafnhildur fór heim með tvenn verðlaun af Eddunni í fyrra; fyrir bestu heimildarmyndina, „Hvað er svona merkilegt við það?“ sem fyrirtæki hennar, Krumma Films, framleiddi, og fyrir besta menningarþáttinn, „Öldina hennar“, sem var í leikstjórn Hrafnhildar.

Vilja alltaf vera úti, nema þegar rignir

Á undan Hrafnhildi fóru tíkurnar Krumma og Birna, sem eru af samójed-kyni. Hrafnhildur segist vera mikill áhugamaður um tegundina, en tíkurnar tvær eru mæðgur. Sú yngri er tveggja ára en hin eldri átta ára.

Spurð hvort tíkunum líki snjórinn ekki vel kveður Hrafnhildur svo vera. „Jólin hjá þeim eru núna,“ segir hún. „Þær taka veðrið mjög nærri sér. Þegar það er rigning vilja þær ekki fara út, en annars vilja þær bara fá að vera úti,“ heldur Hrafnhildur áfram og bætir við að þær verði eins og blautir ullarsokkar í rigningu.

Hrafnhildur hefur iðkað gönguskíði í yfir áratug, allt frá því að hún sótti námskeið á Vatnajökli í gönguskíðum hjá armenskum gönguskíðakappa. „Ég hef alltaf farið á veturna með hundana,“ segir Hrafnhildur en bætir við að upphaflega hafi hún verið með aðra kynslóð af hundum, en þó af sama kyni. Hún hefur þó ekkert komist á skíðin í vetur vegna veðurs.

Hún viðrar hundana þrisvar, fjórum sinnum í viku við Rauðavatn og á Hólmsheiði en fer sjaldnast þangað á gönguskíðum. Bláfjallasvæðið og Skálafell verða heldur fyrir valinu, en í gær var nægur snjór við Rauðavatn og aðstæður góðar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert