„Þetta er að verða bolluvika“

Gott er að fá sér nokkrar bollur í dag.
Gott er að fá sér nokkrar bollur í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við höfum aldrei gefið upp hvað við bökum mikið magn en það skiptir hundruðum þúsunda sem við bökum af bollum,“ segir Björn Jónsson hjá Myllunni í samtali við mbl.is. Nóg er að gera í bakaríum landsins en landsmenn úða í sig bollum í dag á bolludaginn.

Björn segir að flestar bollur sem Myllan framleiði fari ófylltar út á markað. „Síðan framleiðum við rjómabollur fyrir föstudag, laugardag, sunnudag og mánudag,“ bætir hann við en það er liðin tíð að eingöngu sé hægt að nálgast bollur á sjálfan bolludaginn.

Við sendum rjómabollur í verslanir og á bolludeginum er mikið af fyrirtækjum sem kaupa bollur fyrir sitt starfsfólk.“

Aðspurður segir Björn að fólk virðist halda í hefðirnar í dag. Vinsælustu bollurnar eru eins og oft áður vatnsdeigsbollur með súkkulaði. „Þær bera höfuð og herðar yfir aðrar.“

Eru enn að baka

Ragnheiður Rut Georgsdóttir hjá Bakarameistaranum segir að þar sé nóg að gera í dag.  „Við erum búin að baka einhverja tugi þúsunda en það er ekki alveg komið á hreint, við erum enn að,“ segir Ragnheiður.

Bollur hafa verið seldar í útibúum Bakarameistarans frá því í síðustu viku og Ragnheiður hlær þegar hún er spurð að því hvort bolludagurinn sé að belgjast út. „Þetta er að verða bolluvika.“

Líkt og Björn segir Ragnheiður að hefðbundnu vatnsdeigsbollurnar séu vinsælastar. 

Vatnsdeigsbollurnar njóta mikilla vinsælda.
Vatnsdeigsbollurnar njóta mikilla vinsælda. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert