Vilja kynnast íslenskum fjölskyldum

mbl

„Þú ferð ekki bara í næsta hús og biður fólk um að fara að hanga með þér. En ég myndi vilja kynnast íslenskri fjölskyldu,“ segir maður sem kom hingað á eigin vegum og sótti um vernd. Rætt er við flóttafólk sem hingað hefur komið í nýrri skýrslu Alþjóðamálastofnunar.

Aðlögun að íslensku samfélagi var öllum viðmælendum í skýrslunni hugleikin. Þátttakendur sem áttu börn ræddu mikið um aðlögun barna sinna og einn hafði á orði að ef fólki tækist ekki að aðlagast samfélaginu kæmi það niður á börnum þeirra.

Þau sem höfðu verið hvað lengst á landinu töldu sig hafa náð að aðlagast ágætlega þó að fyrstu árin á Íslandi hafi verið mjög erfið. Þau sem höfðu dvalið á Íslandi í innan við fimm ár nefndu aftur á móti ýmsar menningartengdar ástæður fyrir því að erfiðlega gengi að aðlagast íslensku samfélagi.

Tungumálið lykillinn að íslensku samfélagi

Það var samdóma álit þátttakenda að tungumálið væri lykillinn að íslensku samfélagi. Kona, sem hafði búið á Íslandi um nokkurt skeið og náð góðum tökum á málinu, sagði það ekki hafa gerst fyrr en hún fór að treysta sér til að tala íslensku að henni fannst hún tilheyra samfélaginu.

Fyrstu árin var hún félagslega einangruð og varði deginum mest inni við, við sjónvarpsáhorf. Hún lýsti því að hafa haft sig lítið frammi þegar hún var í návist fólks sem talaði íslensku, hún hafi forðast að eiga í samskiptum þar sem hún var ekki viss um að fólk skildi sig og að sömuleiðis hafi annað fólk ekki reynt að hefja samræður við hana. Þetta breyttist allt þegar hún fór að tala íslensku.

„Hjá mér, um leið og ég byrjaði að tala íslensku varð þetta allt annað. [...] Núna þekki ég fullt af fólki og tala við þau á íslensku og mér líður eins og ég sé partur af íslenskri menningu. Ég er ekki lengur svona feimin að gera hluti af því áður vissi ég ekki hvort fólk skildi mig en það er öðruvísi núna. Ég er búin að sjá að það skiptir mjög miklu máli að tala íslensku. Það er það eina sem skiptir máli hér á landi,“ segir konan í viðtali við skýrsluhöfunda en hún kom hingað til lands á sínum tíma sem kvótaflóttamaður.

Geta ekki sótt um vinnu þar sem þau tala ekki tungumálið og eiga ekki fyrir námi

Verst var  staða þátttakenda sem töluðu hvorki íslensku né ensku. Þau áttu það sameiginlegt að vera hvorki í vinnu né námi og lýstu mikilli félagslegri einangrun. Þar sem þau höfðu engar atvinnutekjur bjuggu þau enn fremur við bága fjárhagslega stöðu. Þau upplifðu að þau væru föst í vítahring.

Lítil íslenskukunnátta kom í veg fyrir að þau gætu sótt um störf, en án atvinnutekna gátu þau ekki aflað nauðsynlegs fjár til að fara í tungumálanám og læra íslensku. Þau kölluðu því eftir auknum fjárhagslegum stuðningi til að geta lært íslensku.

En bág íslenskukunnátta hindraði þau ekki aðeins í því að fara út á vinnumarkaðinn og kynnast fólki, heldur kom hún jafnframt í veg fyrir að þau gætu kallað eftir aukinni ráðgjöf og stuðningi. Þau skorti því rödd til að geta breytt stöðu sinni.

„Ef Íslendingur myndi lenda í þessu sama og við, þá myndi hann ekki þegja um þetta. Hann myndi rífa kjaft. En við getum það ekki þar sem við kunnum ekki tungumálið. Aðalmálið er tungumálakennsla. Lykillinn að því að komast yfir þessar hindranir allar er tungumálið,“ segir kona sem hingað kom til lands sem kvótaflóttamaður.

Við eigum okkar drauma

Í umræðu um menningarlegar hindranir var töluvert rætt um stöðu kvenna sem hafa alist upp í ríkjum þar sem ekki tíðkast að konur hljóti menntun eða séu á vinnumarkaði.

Í einum rýnihópnum voru hjón. Konan hafði dvalið á Íslandi í á annað ár, en hún kom til Íslands á eftir eiginmanni sínum, sem hafði komið á eigin vegum og sótt um hæli á Íslandi. Þessi kona tjáði sig nánast ekkert í viðtalinu og þegar umræðustjóri beindi orðum sínum að henni tóku karlmennirnir í hópnum af henni orðið og svöruðu fyrir hana.

Þegar umræðustjóri spurði konuna hvort hana langaði til að hefja nám kinkaði hún kolli en eiginmaður hennar svaraði spurningunni. Hann sagði hana langa til að hefja nám og öðlast starfsréttindi til að geta farið út á vinnumarkaðinn, en í ljósi þess að hún hafi vanist því frá heimalandinu að konur færu ekki mikið af heimilinu skorti hana sjálfstraust til að taka þau skref.

Karlmennirnir í hópnum voru sammála um að það þyrfti að valdefla konur sem koma frá ríkjum þar sem staða kvenna er önnur en á Íslandi, styðja þær í að komast út á meðal fólks og fást við eitthvað sem þær hafa ánægju af. Aukinn stuðningur myndi ekki einungis auðvelda aðlögun kvenna, heldur einnig barna þeirra og maka.

„Þetta var eins með mig. Í landinu mínu fór konan mín aldrei út. En hér langar mig til að hún komist út og hjálpi mér að lifa betra lífi [...] ekki bara til að bæta fjárhagslega stöðu okkar, því eins og ég sé þetta, þá hafa bæði konur og karlar metnað og við eigum okkur drauma. Fyrir mér eru sterkar konur merki um gott líf á jörð,“ er haft eftir manni sem kom á eigin vegum í skýrslu Alþjóðamálastofnunar þar sem þjónusta við flóttafólk og innflytjendur er greind.

Í ljósi þess að staða kvenna væri sums staðar bágborin, þótti viðmælendum mikilvægt að stjórnvöld sæju til þess að flóttafólk fengi mikilvægar upplýsingar um íslenska menningu og hefðir og jafnvel heimsóknir, þar sem rætt væri við konur með aðstoð túlks.

Sögðu þeir jafnframt skorta vettvang þar sem hægt væri að senda inn nafnlausar ábendingar ef einhvern grunaði að brotið væri á rétti kvenna.

Skýrslan í heild

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert