Starfið þurfi að vera samkeppnishæft

Stærstu þættirnir segir Ólafur að séu kaup og kjör kennarastarfsins.
Stærstu þættirnir segir Ólafur að séu kaup og kjör kennarastarfsins. mbl.is/Eggert

„Þetta hefur legið fyrir í þó nokkurn tíma, að það stefni í þetta, og búið er að benda á lengi að ef ekkert verði að gert þá muni þetta verða raunin,“ segir Ólafur Loftsson, formaður Félags grunnskólakennara, um yfirvofandi kennaraskort.

Ný­út­kom­in skýrsla frá Rík­is­end­ur­skoðun, um kostnað og skil­virkni kenn­ara­mennt­un­ar á Íslandi, leiðir í ljós fyr­ir­sjá­an­leg­an kenn­ara­skort á land­inu. Jó­hanna Ein­ars­dótt­ir, for­seti menntavís­inda­sviðs við Há­skóla Íslands, sagði í samtali við mbl.is í gær að niður­stöður skýrsl­unn­ar kæmu ekki á óvart.

„Þetta er raun­veru­lega bara það sem við erum búin að vera að benda á að und­an­förnu. Það er mjög al­var­leg staða uppi og ef ekki út­skrif­ast fleiri kenn­ar­ar þá verður kenn­ara­skort­ur á næstu árum,“ sagði Jó­hanna.

Vís­aði hún í ný­lega rann­sókn eft­ir Stefán Hrafn Jóns­son, pró­fess­or við félagsvísindasvið HÍ, sem sýndi að allt að 50% aukn­ing á út­skrift­um kenn­ara næstu árin myndi samt ekki duga til að viðhalda kenn­ara­stétt­inni.

Ólafur Loftsson, formaður Félags grunnskólakennara, ásamt Rósu Ingvarsdóttur, formanni Kennarafélags …
Ólafur Loftsson, formaður Félags grunnskólakennara, ásamt Rósu Ingvarsdóttur, formanni Kennarafélags Reykjavíkur.

Menntaðir kennarar snúi aftur til kennslu

Ólafur segir að sú staðreynd, að kennaranámið hafi verið lengt úr þremur í fimm ár, sé ekki aðalatriðið.

„Af rúmlega tíu þúsund menntuðum grunnskólakennurum eru aðeins um fimm þúsund við störf. Og af þessum fimm þúsund sem út af standa hafa langflestir farið í þriggja ára nám, svo það er ekki lenging námsins sem er að valda þessu.“

Lausn vandans segir Ólafur að felist í því að fá menntuðu kennarana til kennslu, alls ekki að stytta kennaranámið.

„Maður myndi ætla að stærstu þættirnir væru kaup og kjör og svo auðvitað almennar starfsaðstæður. Það liggur alveg fyrir, að með því að fjölga kennurum í stéttinni til framtíðar, þarf að laga þetta hvort tveggja, gera aðstæðurnar betri og launin hæf til samkeppni við önnur störf. Ef menn vilja sporna við vandanum þá þarf einfaldlega að gera starfið samkeppnishæft.“

Ástandið muni versna hratt eftir því sem árin líða.

„Menn hafa visst svigrúm til að bregðast við þessu en því fyrr sem það er gert, því betra.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert