„Vorum vægast sagt í sjokki“

Rafmagnsrofa vantar á flestar hurðir á háskólasvæðinu og því erfitt …
Rafmagnsrofa vantar á flestar hurðir á háskólasvæðinu og því erfitt og jafnvel ómögulegt að komast inn og út um hurðaropin án aðstoðar. Skjáskot/Jafnréttisnefnd SHÍ

„Við fórum um alla helstu staði í háskólanum og það sem kom í ljós var í rauninni bara sláandi,“ segir Vilborg Ásta Árnadóttir en hún og fleiri í jafnréttisnefnd SHÍ gerðu í dag eins konar úttekt á aðgengismálum við Háskóla Íslands og fóru um háskólasvæðið í tveimur hjólastólum.

„Það hefur alltaf brunnið á mér að það þurfi að berjast fyrir aðgengismálum. Þau mæta einhvern veginn alltaf afgangi. […] Við ákváðum að ráðast í svolítið róttækar og sjónrænar aðgerðir.“

Jafnréttisnefndin fór því um háskólasvæðið á tveimur hjólastólum og kannaði aðgengi bæði innan- og utandyra.

„Við fórum um helstu staði háskólans en alls ekki alla. Við vorum vægast sagt í sjokki. Við rákumst á hverja hindrunina á eftir annarri og það var bara augljóst að aðgengi er mjög ábótavant víða.“

Nefndin sýndi úttektina á Snapchat og deildi svo afrakstrinum á Facebook-síðu sinni en í myndbandinu má sjá hvernig þær eiga í vandræðum með að komast inn og út um dyr og milli bygginga.

„Þetta var okkar leið til að vekja enn meiri athygli á þessu vandamáli sem ríkir í skólanum,“ segir Vilborg Ásta en hún bendir einnig á að jafnréttisnefndin hafi þegar náð fram einhverjum umbótum í aðgengismálum.

„Eftir að við tókum við [í jafnréttisnefndinni] þá tókum við eftir því að það vantar rafmagnsrofa á allar lesstofur og tölvustofur. Við erum búin að þrýsta rosalega á þetta og núna eiga að koma rafmagnsrofar á helstu lesstofur háskólans, þannig að það er góð breyting.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert