Fækkun dreifingardaga sparar 200 milljónir

Íslandspóstur.
Íslandspóstur.

Sparnaður Íslandspósts af því að fækka dreifingardögum póstsendinga í sveitum landsins í apríl í fyrra nemur um 200 milljónum króna árlega. Beinn sparnaður vegna færri vitjana er um 170 milljónir, en auk þess hefur svigrúm til flokkunar aukist sem einnig hefur aukið sparnað. Þetta kemur fram í skýrslu sem Íslandspóstur skilaði um breytinguna til Póst- og fjarskiptastofnunar.

Frá því að ákvörðun var tekin um fækkun dreifingardaga í sveitum hefur orðið veruleg aukning í skráðum sendingum á landsvísu. Þannig voru skráðar sendingar um 20% fleiri á árinu 2016 en árið 2015, mest á höfuðborgarsvæðinu. Hlutfallsleg aukning í dreifbýli er á bilinu 10-15%, segir í skýrslunni.

Segir Íslandspóstur í skýrslunni að fyrirtækið hafi fullan áhuga á að halda uppi tíðari þjónustu, en til þess hafi það ekki fjárhagslegt bolmagn, ef tekjur af þjónustunni nægja ekki fyrir kostnaði, sem af henni leiðir. Þá vekur félagið athyli á því að víðast hvar í Evrópu sé hluti af póstþjónustu, þar sem tekjur duga ekki fyrir gjöldum, greiddur af stjórnvöldum, en slíkt þekkist ekki hér á landi.

Er það niðurstaða Íslandspósts að breytingarnar hafi almennt gengið vel og að kostnaðarlækkunin hafi gengið eftir. Kvartanir séu mun færri frá móttakendum en búist var við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert