Kaupa byggingarnar á Gufuskálum

Gufuskálar. Miklar byggingar og fjölbýlishúsin á svæðinu eru hér fremst.
Gufuskálar. Miklar byggingar og fjölbýlishúsin á svæðinu eru hér fremst. mbl.is/Alfons Finnsson

Gengið hefur verið frá kaupum Snæfellsbæjar á mannvirkjum við gömlu lóranstöðina á Gufuskálum á utanverðu Nesinu. Byggingarnar á svæðinu eru alls tíu, þar á meðal tvö fjölbýlishús, einbýli, samkomusalur og stórar skemmur, alls um 3.300 fermetrar. Eignir þessar voru áður í eigu ríkisins, sem vildi selja. Æskilegast þótti þá að þær yrðu áfram í opinberri eigu, enda innan marka Þjóðgarðsins Snæfellsjökuls.

Lóranstöðin á Gufuskálum var sett á laggirnar um 1960 og var hluti af lórankerfinu sem bandaríska strandgæslan átti og náði yfir norðurhvel jarðar. Nýttist kerfið til að staðsetja m.a. skip og flugvélar á svæðinu. Á sínum tíma krafðist starfsemin á Snæfellsnesi svo þess að þar væri nokkuð fjölmennt starfslið og því þurfti mikil mannvirki á svæðinu.

Lóran lagðist af

Í kringum 1990 var lórantæknin orðin úrelt og því lagðist starfsemi Gufuskálastöðvarinnar af. Ríkið fékk því eignirnar í fangið og var þeim ráðstafað með ýmsu móti. Árið 1998 fékk Ríkisútvarpið mastrið á Gufuskálum, sem er 412 metrar og hæsta mannvirki á landinu. Nýtist það nú til endurvarps útvarpsútsendinga á langbylgju. Slysavarnafélagið Landsbjörg fékk svo flestar húseignirnar til umráða og starfrækti þar til allmargra ára björgunarskóla, sem nú hefur verið lagður af. Í dag er á Gufuskálum búseta í einu húsi og aðsetur ferðaþjónustufyrirtækis.

Nýtist ferðaþjónustunni

„Við sjáum ýmis tækifæri með kaupunum á Gufuskálum með tilliti til ferðaþjónustunnar,“ segir Kristinn Jónasson, bæjarstjóri í Snæfellsbæ. Hann telur ákjósanlegast að nýta eignirnar til uppbyggingar ferðaþjónustu. Sum húsin á Gufuskálum segir hann að séu í góðu lagi, en önnur þarfnist endurbóta, svo sem annað tveggja fjölbýlishúsa. Almennt talað séu kaupin hugsuð til langs tíma og hagsmunir sveitarfélagsins felist meðal annars í því að geta ráðið för varðandi uppbyggingu svæðisins og framtíðarnýtingu þess.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert