30% búa við matarskort

Kjötsala í Mpondwe í Úganda. Um 30% þjóðarinnar býr við …
Kjötsala í Mpondwe í Úganda. Um 30% þjóðarinnar býr við matarskort. AFP

Stjórnvöld í Úganda segja að 30% þjóðarinnar búi við matarskort vegna þurrka. „Ljóst hefur verið í nokkrar vikur að umfang þessa vanda vex en ekki hafa komið fram áður svo ógnvænlegar tölur,“ er haft eftir Stefáni Jóni Hafstein, forstöðumanni sendiráðs Íslands í Kampala, í Heimsljósi, vefriti um þróunarmál.

Stefán Jón Hafstein starfar í sendiráði Íslands í Úganda.
Stefán Jón Hafstein starfar í sendiráði Íslands í Úganda. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Stefán Jón segir að undanfarin ár hafi hinir hefðbundnu regntímar í Úganda breyst, regn verið óreglulegra og löng óvænt þurrkatímabil komið. „Í umræðunni er að Úganda, sem er ákaflega frjósamt land, geti ekki lengur byggt smábændalandbúnað sinn á úrkomu einni. Áveitur þykja ákjósanlegur kostur fyrir bændasamfélögin en þar er langt í land enn þá. Úganda hefur ekki farið að ráði sumra Afríkuríkja og bannað matvælaútflutning vegna ástandsins, enda býr landið við mikinn gjaldeyrisskort. Raddir um slíkt bann ágerast nú og kröfur gerast háværari um að ríkisvaldið komi til hjálpar með því að úthluta matvælum,“ segir Stefán Jón.

Matvælaskortur er nú víða í austurhluta Afríku. Framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna segir að um 20 milljónir manna í fjórum löndum séu við hungurmörk. Hann segir að fjárþörfin fyrir lok marsmánaðar sé 4,4 milljarðar Bandaríkjadala, eða tæplega 500 milljarðar íslenskra króna.

Svæðin fjögur þar sem hungrið sverfur að eru Unity-ríki í Suður-Súdan þar sem þegar hefur verið formlega lýst yfir hungursneyð, norðausturhluti Nígeríu, Sómalía og Jemen.

Í þremur tilvikum er matarskorturinn tilkominn fyrst og fremst vegna vopnaðra átaka en í einu tilviki, Sómalíu, eru langvarandi þurrkar meginskýringin. Þurrkar eru þó einnig hluti af neyðarástandinu á hinum þremur svæðunum, segir í frétt Heimsljóss. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert