Slökkt verður á götulýsingunni

Sævar Helgi Bragason, formaður Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness, mun veita fólki leiðsögn.
Sævar Helgi Bragason, formaður Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness, mun veita fólki leiðsögn. mbl.is/Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Slökkt verður á götulýsingu á svæðinu í kringum byggingar Háskóla Íslands og í Vesturbæ og miðbæ Reykjavíkur í 45 mínútur annað kvöld til þess að hægt verði að njóta stjörnuskoðunar sem best. Það er Bóksala stúdenta og Stjörnufræðivefurinn auk Háskóla Íslands sem stendur fyrir viðburðinum en hann hefst klukkan 20:00 fyrir framan aðalbyggingu skólans.

Markmið viðburðarins er að hvetja fólk til þess að njóta himinhvolfsins nú þegar veður er stillt og veðurskilyrði til stjörnuskoðunar eru með besta móti. Sævar Helgi Bragason mun lýsa því sem fyrri augu ber á kvöldhimninum en hann er fyrir löngu orðinn landsþekktur fyrir miðlun sína á undrum himingeimsins,“ segir í fréttatilkynningu frá Háskóla Íslands.

Jafnframt gefist fólki færi á að skoða tunglið og ýmsar stjörnur í gegnum sjónauka sem Sævar Helgi verði með. Hugsanlega verður einnig hægt að skoða norðurljósin láti þau sjá sig. Safnast verður saman fyrir framan aðalbygginguna klukkan 20:00 og götulýsingin slökkt á milli klukkan 20:30 og 21:15 í samvinnu við Reykjavíkurborg og Orku náttúrunnar. 

„Spáð er björtu en köldu veðri og því er vissara að klæða sig vel áður en haldið er af stað til móts við stjörnurnar,“ segir enn fremur. 

Slökkt verður á götulýsingu á svæðum 10, 11 og 20.
Slökkt verður á götulýsingu á svæðum 10, 11 og 20.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert