6.000 fuglar í 2.100 fugla rými

mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Í desember síðastliðnum taldi Matvælastofnun 5.500-6.000 fugla í uppeldishúsi Brúneggja á Stafholtsveggjum í Borgarfirði en húsið átti að rýma 2.100 fugla og fóðurkerfið aðeins gert fyrir um 1.100 fugla.

Frá þessu er greint á vef RÚV en stjórnendur Brúneggja sendu frá sér tilkynningu í morgun þar sem greint var frá því að farið hefði verið fram á að fyrirtækið yrði tekið til gjaldþrotameðferðar.

Í frétt RÚV segir m.a. frá eftirlitsferð héraðsdýralæknis að Stafholtsveggjum en í skoðunarskýrslu segir að ekki hafi verið hægt að fóta sig í húsinu fyrir fugli. Fimm dögum síðar fór héraðsdýralæknir aftur á vettvang en þá hafði ástandið versnað; hænurnar farnar að verpa „í stórum stíl og dauður fugl sást við fóðurlínu,“ segir í frétt RÚV.

Dagsektir að upphæð 6 milljónir voru lagðar á Brúnegg í desember, janúar og febrúar vegna aðbúnaðar að Teigi í Mosfellsbæ en í byrjun febrúar var ákveðið að slátra öllum fugli þar og leggja niður starfsemina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert