Jákvæð samskipti eru lykillinn

Debra J. Pepler, prófessor við York-háskóla í Kanada, ræddi um …
Debra J. Pepler, prófessor við York-háskóla í Kanada, ræddi um einelti á ráðstefnu í morgun. mbl.is/Golli

Einelti er samfélagslegt vandamál sem allir þurfa að hjálpast að við að leysa. Við höfum öll þörf fyrir að tilheyra, það er hluti af því að vera manneskja, en einelti vinnur gegn þeirri tilfinningu. Ýmsar leiðir eru færar til að grípa inn í eineltismál og greindu sérfræðingar frá Kanada, Finnlandi og Íslandi frá árangursríkum aðferðum til þess á ráðstefnunni, Einelti – leiðir til lausna, sem hófst í morgun við Háskóla Íslands. 

„Jákvæð samskipti milli fólks eru lykillinn að því að uppræta einelti,“ segir Debra J. Pepler, prófessor við York-háskóla í Kanada, á ráðstefnunni. Pepler fjallaði um eineltisforvarnir og heilbrigð samskipti sem leið til að vinna gegn einelti. Pepler hefur rannsakað einelti og annars konar ofbeldi á börnum í áhættuhópum í áratugi. Hún er einn helsti sérfræðingur á sviði eineltisrannsókna og forvarna.

Heilbrigð samskipti vinna gegn einelti. Það á jafnt við um samskipti milli barnanna sjálfra, barna og fullorðinna og á ekki síst við um samskipti fullorðinna því börnin læra það sem fyrir þeim er haft, að sögn Pepler. 

Samskipti barna og foreldra verða að vera góð

„Til að barnið geti átt í góðum samskiptum við aðra þurfa þau fyrst og fremst að eiga í góðum og uppbyggilegum samskiptum við foreldra sína,” segir Pepler og bendir á að gott samband milli barna og foreldra hafi verndandi áhrif. Hún segir það því miður ekki alltaf vera fyrir hendi. Rannsóknir sýna að samskipti barna og fullorðinna koma ekki vel út í Kanada en þar mælist einelti með því mesta sem þekkist í heiminum. 

„Ég er miður mín yfir því. Það eina sem við getum gert er að halda áfram,“ segir Pepler og bendir á að einelti sé samfélagslegt vandamál sem allir þurfa að leysa, ekki bara skólinn. 

Í þessu samhengi bendir hún á aðra rannsókn sem mikið er rætt um: PISA-könnunina sem mælir námsgetu barna. Þar standa kanadísk börn vel að vígi og koma næst á eftir þeim finnsku sem tróna á toppnum. „Viljum við samt ekki frekar að færri verði fyrir einelti og fleiri upplifi sig örugg frekar en að ná toppnámsárangri?“ spyr hún en tekur fram að í hinum fullkomna heimi fari þetta tvennt saman.  

Kennarar vinna eftir aðgerðaráætlunum gegn einelti.
Kennarar vinna eftir aðgerðaráætlunum gegn einelti. mbl.is/Eggert

Einelti er ekki hluti af því að alast upp

Þegar Pepler byrjaði að rannsaka einelti voru ekki margar rannsóknir til á þessu sviði í Kanada. Dæmi um algengt viðhorf og tilsvör þegar einelti bar á góma við hana voru á þessa leið: „Þetta er hluti af því að alast upp,“ „börnin fullorðnast bara við þetta“ og „þau fá þykkari skráp við að lenda í einelti“. Pepler ítrekar að ekkert barn eigi að þurfa að upplifa einelti og það hjálpar því ekki fullorðnast. Það er afleit hugmynd en einelti hefur neikvæð áhrif á þroska barna.  

Pepler leiðir regnhlífarsamtökin PREVNet (Promoting Relationships and Eliminating Violence Network) sem yfir sextíu aðildarfélög eiga hlut að. Á annað hundrað fremstu fræðimanna Kanada á sviði eineltis standa á bak við samtökin sem stofnuð voru í þeim tilgangi að stöðva einelti og stuðla að heilbrigðum samskiptum barna. Þessi regnhlífarsamtök starfa náið meðal annars með Skátahreyfingunni, Rauða krossinum og ýmsum öðrum félagasamtökunum.

Í erindinu greindi hún frá þeim árangri sem hefði náðst með PREVNet. Hún segir að þrátt fyrir að mikið hafi áunnist í að uppræta einelti síðustu ár þá sé enn langt í land. „Við ætlum samt að halda áfram að breyta heiminum. Við getum öll tekið eitt skref í rétta átt,“ segir hún. 

Bekkurinn var þéttsetinn á ráðstefnu um einelti í Háskóla Íslands …
Bekkurinn var þéttsetinn á ráðstefnu um einelti í Háskóla Íslands í morgun. mbl.is/Golli

Skeytingarleysið er verst 

„Hver einn og einasti sem stendur með þeim sem verður fyrir einelti skiptir hann gríðarlega miklu máli. Skeytingarleysið er verst fyrir þann sem verður fyrir einelti. Hann þarf ekki endilega að hafa komið í veg fyrir það heldur jafnvel bara sagt honum að hann hafi orðið vitni að því og finni til með þolandanum,” segir Sanna Herkama, sérfræðingur í upplýsingamiðlun og fræðimaður við Turku-háskóla í Finnlandi, í erindi sínu um KiVa-áætluninni gegn einelt sem er notuð í Finnlandi.   

KiVa-áætlunin er aðgerðaáætlun gegn einelti sem notuð hefur verið í finnska menntakerfinu og víða um heim. Hún hefur borið góðan árangur og mælingar sýna að bæði þeim sem hafa orðið fyrir einelti og einnig gerendum hefur fækkað umtalsvert. Áætlunin hefur verið notuð í um 10 ára skeið í Finnlandi.

Nemendur fá mikla fræðslu um einelti og þeim eru kenndar leiðir í því hvernig þeir geta brugðist við þegar þeir verða vitni að einelti, hvaða áhrif þeir geta haft þegar þeir standa við hlið þeirra sem verða fyrir því og þeim kennt að sýna samúð svo fátt eitt sé nefnt. Það sem er ekki síður mikilvægt er að þeir fá fræðslu um hvaða hegðun viðheldur eineltinu.  

Dýrmætt fyrir nemendur að kennarar líði ekki einelti

„Það er dýrmætt fyrir kennara að fá tæki í hendur sem þeir geta notað til að vinna eftir til að koma í veg fyrir og grípa inn í eineltismál. Við þurfum að hafa áhrif á kerfið sem viðheldur ástandinu. Því það er mjög mikilvægt fyrir nemendur að sjá kennara sinn gera eitthvað í eineltismáli,“ segir Herkama. 

Líkt og önnur kerfi sem reyna að sporna gegn einelti er þetta ekki eina lausnin til að koma í veg fyrir einelti því einelti getur verið dulið. „En þessi áætlun hefur sýnt árangur og þetta er maraþon en ekki spretthlaup,“ segir Herkama. Hún bætir við að við megum aldrei sofna á verðinum og samfélagið allt verður að sýna ábyrgð gegn einelti sem er leiðarstefið í ráðstefnunni.   

Einelti er ekki hluti af því að herða börnin.
Einelti er ekki hluti af því að herða börnin. mbl.is/Eyþór
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert