Sterk nærvera Reynis

Reynir sterki setur frægt heimsmet með því að losa sig …
Reynir sterki setur frægt heimsmet með því að losa sig úr hlekkjum inni í fangaklefa.

„Án þess að segja of mikið þá lét hann vita af sér. Nú er ég skeptískur maður að eðlisfari en það eru eigi að síður áhöld um það hvor okkar hafi stýrt þessari mynd, Reynir eða ég. Við fundum vel fyrir Reyni við gerð myndarinnar og það kemur glöggt fram í henni. Hlutir eiga sér stað.“

Þetta segir kvikmyndagerðarmaðurinn Baldvin Z en hann er nú að leggja lokahönd á heimildarmynd um goðsögnina Reyni sterka sem frumsýnd verður í haust.

Þegar Baldvin nefndi hugmyndina fyrst við seinni eiginkonu Reynis, Erlu Sveinsdóttur, um aldamótin hafði hann ekki lokið námi og í ljósi þess að fleiri bönkuðu á dyrnar bjóst hann við því að hún myndi afhenda öðrum myndefnið. „Þá fór hún á miðilsfund þar sem Reynir kom fram og sagði henni að bíða eftir unga drengnum.“ Og það gerði hún.

Reynir Örn Leósson var fæddur árið 1939 og lést langt fyrir aldur fram árið 1982 úr lungnakrabba. Snemma tók að bera á óvenjulegum kröftum hans og Reynir ferðaðist upp frá því víða og sýndi aflraunir. Hann setti þrjú heimsmet, sem Heimsmetabók Guinness viðurkennir og standa enn. Meðal annars braust hann út úr fangaklefa enda þótt hann væri settur þar inn rækilega bundinn og keflaður. Annað met setti Reynir þegar hann sleit 6,1 tonns þunga keðju í sundur og fær Baldvin aflraunamenn úr samtímanum til að freista þess að slá metið í myndinni.

Engum sögum fer af útkomunni. „Þú verður bara að sjá myndina!“

Baldvin kveðst segja sögu Reynis með persónulegum hætti en markmiðið er að leita svara við því hver maðurinn var og hvað gerði hann svona óvenjulegan. Baldvin ferðaðist meðal annars vítt og breitt um landið ásamt Dísu Anderiman, sem hjálpaði honum að koma þessu verkefni af stað árið 2009, og tók fjölmörg viðtöl við fólk sem þekkti Reyni. „Það eru allir sammála um að hann hafi verið mjög óvenjuleg manneskja og þá erum við ekki bara að tala um kraftana. Það var margt annað óvenjulegt við Reyni sterka,“ segir Baldvin. 

Nánar er rætt við Baldvin í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Baldvin Z.
Baldvin Z. Ómar Óskarsson
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert