Þrír vinir féllu fyrir eigin hendi

Gunnar Hrafn Jónsson, þingmaður Pírata.
Gunnar Hrafn Jónsson, þingmaður Pírata. Ljósmynd/Gunnar Hrafn Jónsson

Gunnar Hrafn Jónsson, þingmaður Pírata, var gestur Kristjáns Kristjánssonar í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni í dag. Þar sagði hann frá frá baráttu sinni við þunglyndi og ræddi möguleg úrræði í geðheilbrigðismálum á Íslandi. Gunnar Hrafn tók sér leyfi frá þingstörfum vegna veikinda sinna en hefur nú aftur hafið störf í þinginu.

„Þetta er sjúkdómur sem tekur sig mjög oft upp á unglingsárum,“ sagði Gunnar Hrafn á Sprengisandi, en sjálfur veiktist hann á unglingsárum. „Bara frá því að ég var mjög ungur maður man ég eftir að sækja mjög mikið í allt svona myrkur, þungarokk og dauðarokk og allt svona sem var mjög svart og niðurdrepandi. Og það var svolítið svona minn staður í lífinu.“

Sjálfsvíg er algengasta dánarorsök ungra karla á Íslandi en sjálfur hefur Gunnar Hrafn misst þrjá góða vini sem féllu fyrir eigin hendi og sjálfur hefur hann íhugað að taka eigið líf.

Var ódæll unglingur

„Hjá mér varð þetta mjög slæmt mjög fljótt,“ segir Gunnar en hann kveðst hafa verið í félagsskap með öðrum drengjum sem einnig voru mjög langt niðri andlega og fundu þeir stuðning hver frá öðrum. Hópurinn einangraði sig þó frá öðru fólki í samfélaginu og fljótt voru þeir farnir að drekka og fikta með önnur vímuefni að sögn Gunnars.  

„Þar er bara voðinn vís, þetta er þannig sjúkdómur að ef þú grípur ekki inn í fljótt þá ágerist hann,“ útskýrir Gunnar. Segist hann hafa verið ódæll unglingur og til vandræða en hann hafi ekki skilið af hverju hann ætti að vera virkur þátttakandi í samfélaginu þegar honum liði svona illa.

„Stóri vendipunkturinn í mínu lífi er þegar einn af þessum vinum mínum, og bara langbesti vinur minn, við vorum saman alla daga, hann ákveður að fyrirfara sér. Og ég ákveð að gera það líka,“ segir Gunnar Hrafn.

Búnir að velja dagsetningu

Höfðu þeir vinirnir ákveðið dagsetningu og voru þeir búnir að velta fyrir sér með hvaða hætti þeir gætu bundið enda á tilveruna. „Svo kemur hann bara til mín einn daginn með mjög fjarrænt augnaráð,“ segir Gunnar. Hafði vinur hans þá verið að skoða möguleika um morguninn og vildi fara að drífa í þessu og vildi fá Gunnar með sér.

„Við taka nokkrir klukkutímar sem ég man ekkert ofboðslega vel, bara í geðshræringu að reyna að einhvern veginn jafnvel tala hann ofan af þess,“ útskýrir Gunnar. Um leið hafi hann reynt að sannfæra sjálfan sig um að rétt væri að hætta við.

„Síðan varð niðurstaðan sú að ég missti af honum niður í bæ og hljóp á eftir honum og vissi  ekkert hvar hann er,“ segir Gunnar. Daginn eftir komst hann að því að vinur hans hafði drekkt sér höfninni um nóttina. Kvaðst Gunnar ekki muna mikið eftir dögum og vikum þar á eftir enda í miklu áfalli.

„Ég man ekki eftir útförinni þó að ég hafi víst borið kistuna. Þá sá ég kannski raunveruleikann sem liggur að baki þessum sjúkdómi,“ segir Gunnar.

Upp frá þessu fór hann að átta sig betur og betur á alvarleika sjúkdómsins og gerði sér grein fyrir að hann hefði verið í lífshættu. Hann skipti þá alveg um umhverfi og flutti ásamt föður sínum til Kína og telur hann sig hafa haft mjög gott af því.

Sveiflukenndur sjúkdómur

Hann bjó í Kína og í Berlín í einhvern tíma, flutti svo heim og lauk háskólanámi og hóf störf við blaðamennsku. Sjúkdóminn segir Gunnar Hrafn hafa verið sveiflukenndan en árið 2007 fékk hann slæmt kast og tók það hann nokkuð langan tíma að jafna sig. „Eftir það í raun og veru hófst fullorðinslíf mitt raunverulega,“ segir Gunnar Hrafn, „þá byrjaði ég að vinna á Rúv og rest is history“.

Sem fyrr segir tók Gunnar Hrafn tímabundið veikindaleyfi í desember eftir að sjúkdómurinn fór aftur að láta á sér kræla en hann segir hugræna atferlismeðferð hafa hjálpað sér mikið í baráttu sinni við þunglyndið.

„Þegar ég var í mestu örvæntingunni þarna fyrir jól var ég að velta fyrir mér; hvað er nákvæmlega að? Ég er með fína vinnu, ég er alþingismaður ég get gert það sem ég vil gera með þau mál sem ég vil koma áfram í samfélaginu,“ útskýrir Gunnar Hrafn. „Það er allt fullkomið nema að boðin inni í hausnum á mér eru að segja mér að það sé allt að.“

Lýsir hann upplifun sinni af sjúkdómnum þannig að það sé eins og heilinn í honum ákveðið að hann eigi að vera hræddur og kvíðinn og upplifi yfirvofandi skelfingu og að eitthvað slæmt sé á næsta leiti. „Þetta er ekki ég, þetta er sjúkdómurinn,“ segir Gunnar en tekur þó fram að vissulega sé sjúkdómurinn partur af því hver hann er.

Neysla vímugjafa bætir gráu ofan á svart

Oft ýtir neysla áfengis og vímuefna undir andlega kvilla og sjúkdóma en ekki síður öfugt. Það er raunin í tilfelli Gunnars Hrafns sem er óvirkur alkóhólisti en hann leitaði í vímugjafa til að reyna að lina sársaukann sem þunglyndið olli.

„Þú getur ekki náð bata af andlegum sjúkdómum ef þú ert í neyslu,“ segir Gunnar Hrafn og telur hann skorta úrræði hvað þetta varðar. Erfitt sé að finna stað í kerfinu fyrir þá sem glíma við fíkn og eru andlega veikir í senn en meðferðarstofnanir á borð við Vog séu til að mynda ekki í stakk búnar til að veita fólki í geðrofi viðeigandi þjónustu. Þá hafi hann heyrt frá lögreglumönnum sem hafi oftar en þeir vildu þurft að vista fólk í fangageymslu sem ekki ætti erindi í fangelsi heldur væri einfaldlega veikt og þyrfti hjálp.  

Hjálpin kemur allt of seint

Gunnar Hrafn kveðst hafa farið í pólitík því hann vildi ekki missa af tækifærinu til að láta gott af sér leiða og vildi reyna að bæta kerfið. Allt of algengt sé að þeir sem þurfa á hjálp að halda vegna geðrænna sjúkdóma fái þjónustu allt of seint og úr því þurfi að bæta.

„Við töpum á því að fólk komist ekki inn í kerfið fyrr en það er orðið of seint,“ segir Gunnar Hrafn. Ýmislegt þurfi að bæta og draga þurfi úr fordómum í garð þeirra sem glími við geðsjúkdóma. „Það tekur ekkert mjög langan tíma á Íslandi að útrýma fordómum. Þetta er næsta verkefni að ráðast í,“ segir Gunnar Hrafn.

„Ég ætla að vona að skammsýnin nái ekki tökum á okkur heldur náum við einhvern veginn að hugsa þetta til lengri tíma,“ segir Gunnar Hrafn. Það hafi ekkert annað í för með sér en að „planta fólki á örorku,“ ef aðeins er glímt við einkenni sjúkdómsins en ekki orsökina og hjálp þurfi að standa fólki til boða áður en fólk er of langt leitt í veikindum sínum.

Það er í mörg horn að líta og segist Gunnar eiga von á að eiga fund með heilbrigðisráðherra fljótlega til að ræða þessi mál en persónulega finnst honum einna mest aðkallandi að boðið sé upp á sólarhringsþjónustu á geðdeild.

„Ég hef sjálfur misst þrjá nána vini,“ segir Gunnar Hrafn og bætir við að allir hljóti að vera sammála um að það að um 50 manns falli fyrir eigin hendi á ári hverju hljóti að vera allt of há tala og við því þurfi að bregðast.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert