Alda Hrönn fær afrit af málsgögnum

Hæstiréttur hefur staðfest rétt Öldu til að fá að sjá …
Hæstiréttur hefur staðfest rétt Öldu til að fá að sjá gögnin í málinu gegn sér. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

Hæstiréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur þess efnis að héraðssaksóknara beri að afhenda verjanda Öldu Hrannar Jóhannsdóttur, aðallögfræðings hjá embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, afrit af öllum skjölum sem varða hana í svokölluðu LÖKE-máli.

Í dóminum er rakið hvernig beiðni verjanda Öldu um afrit af gögnum málsins var hafnað með vísan til rannsóknarhagsmuna í desember sl. en skömmu síðar var málið fellt niður þar sem það sem fram var komið þótti ekki nægjanlegt eða líklegt til sakfellis.

Ákvörðun héraðssaksóknara um niðurfellingu málsins var skotið til ríkissaksóknara, sem felldi ákvörðunina úr gildi sökum vanhæfis lögreglufulltrúa sem vann að rannsókn málsins.

Í kjölfarið, 31. janúar 2017, ítrekar verjandi Öldu kröfu sína um afhendingu gagna í málinu en henni hafnaði héraðssaksóknari 3. febrúar, með þeim rökum að endurtaka þyrfti rannsóknina að stórum hluta og hún gæti skaðast ef gögnin yrðu afhent.

Hæstiréttur komst m.a. að þeirri niðurstöðu að eftir að málið gegn Öldu var fellt niður af hálfu héraðssaksóknara hefði hún átt rétt á því að kynna sér gögn málsins samkvæmt stjórnsýslulögum. Skipti þá engu þótt bera mætti þá ákvörðun undir ríkissaksóknara.

Í síðasta lagi á því tímamarki bar sóknaraðila að afhenda varnaraðila eða lögmanni hennar skjöl málsins. Getur engu breytt í því tilliti staðhæfing sóknaraðila um að aðgangur að gögnum málsins geti spillt rannsóknarhagsmunum án þess að því hafi nánar verið lýst í hverju þeir hagsmunir séu fólgnir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert