Auka öryggi fólks í miðborginni

Eftirlitsmyndavélum verður fjölgað í Reykjavík.
Eftirlitsmyndavélum verður fjölgað í Reykjavík. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sérfræðingar frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu og Reykjavíkurborg komu á fund allsherjar- og menntamálnefndar í morgun þar sem farið var yfir öryggi í miðborg Reykjavíkur.

„Við ræddum við þau aðgerðaáætlun og samstarf er varðar öryggi íbúa í miðborginni. Til að mynda ofbeldislausa skemmtistaði, fjölgun lögreglumanna og fjölgun eftirlitsmyndavéla,“ segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, formaður allsherjar- og menntamálanefndar, í samtali við mbl.is.

Áður hafði Sigríður Björk Guðjónsdóttir lögreglustjóri greint frá því að 30 nýjar eftirlitsmyndavélar verði komnar upp í miðborginni fyrir 1. maí.

Áslaug segir að auk þess verði lögreglumenn sýnilegri í miðborginni eftir miðnætti. „Við fengum að sjá tölur sem sýna að ofbeldisbrotum hefur fækkað en komum á neyðarmóttökuna hefur fjölgað,“ segir Áslaug og bætir við að með þessum aðgerðum eigi öryggi fólks í miðborginni að aukast.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert