Bakstur Bjarna vakti athygli

Bjarni birti myndir af skreytingu HeForShe-kökunnar á Twitter-síðu sinni.
Bjarni birti myndir af skreytingu HeForShe-kökunnar á Twitter-síðu sinni. Twitter/Bjarni Benediktsson

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra tók í dag þátt í viðburðum á vegum UN Women í New York vegna átaksins HeForShe, þegar formlegri listaviku átaksins var hleypt af stokkunum í Lincoln Center með samtali forsætisráðherra, leikarans og góðgerðarsendiherrans Edgars Ramirez og leikstjórans Oskars Eustis um jafnréttismál og listir.

Bjarni er einn tíu málsvara HeForShe úr hópi þjóðarleiðtoga. Hann lagði í máli sínu áherslu á launajafnrétti og mikilvægi þess að brjóta niður staðalímyndir og að virkja karla í jafnréttisbaráttunni.  Í tilefni dagsins hafði Bjarni skreytt HeForShe-köku sem hann afhenti Phumzile, framkvæmdastýru UN Women, að því er segir í fréttatilkynningu frá forsætisráðuneytinu. Bjarni birti myndir af kökuskreytingunni og setningu listavikunnar á Twitter-síðu sinni.

Síðar um morguninn flutti forsætisráðherra ávarp á sérstökum hátíðarfundi SÞ í tilefni af alþjóðlegum baráttudegi kvenna. Þar voru einnig á meðal þátttakenda forseti allsherjarþings SÞ, varaframkvæmdastjóri SÞ og framkvæmdastýra UN Women, ásamt leikkonunni Anne Hathaway, góðgerðarsendiherra UN Women, sem kynnti baráttumál sitt; launað fæðingarorlof fyrir mæður og feður.

Hathaway vakti sérstaka athygli á að Bandaríkin séu eftirbátur vestrænna þjóða þegar kemur að því að tryggja réttindi foreldra í fæðingarorlofi.

Bjarni Benediktsson í Lincoln Center. Hann lagði í máli sínu …
Bjarni Benediktsson í Lincoln Center. Hann lagði í máli sínu áherslu á launajafnrétti og mikilvægi þess að brjóta niður staðalímyndir og að virkja karla í jafnréttisbaráttunni. Twitter/Bjarni Benediktsson

Forsætisráðherra kynnti enn fremur og afhenti svokallað Barbershop Toolbox, en Ísland skuldbatt sig gagnvart HeForShe til að þróa slíka verkfærakistu til að hjálpa öðrum að skipuleggja jafnréttisviðburði sem nái til karla og drengja.

„Auk þess að ræða mikilvægi þess að brjóta niður staðalímyndir og að virkja karla í jafnréttisbaráttunni lagði forsætisráðherra áherslu á launajafnrétti kynjanna og mikilvægi jafnlaunastaðalsins í þeim aðgerðum. Þá fjallaði hann um þann góða árangur sem náðst hefur á Íslandi í jafnréttismálum en lagði áherslu á að verkinu væri hins vegar hvergi nærri lokið. Hann vék sérstaklega að mikilvægi kvennahreyfingarinnar á Íslandi í jafnréttisbaráttunni, framboði Kvennalistans og kjöri Vigdísar Finnbogadóttur í embætti forseta Íslands á sínum tíma og þeim innblæstri sem kjör hennar var,“ að því er segir í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert