Hafa vanrækt Atlantshafið

Rose Gottemoeller, aðstoðarframkvæmdastjóra NATO.
Rose Gottemoeller, aðstoðarframkvæmdastjóra NATO. Eggert Jóhannesson

Ef það er eitthvert svæði sem þarfnast meiri forgangs í varnarmálum en áður er það Norður-Atlantshafið. Þetta kom fram í máli Rose Gottemoeller, aðstoðarframkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins, á hádegisfundi sem hún hélt í Norræna húsinu í dag undir yfirskriftinni Atlantshafsbandalagið og alþjóðaöryggismál.

Sagði Gottemoeller að á síðasta fundi varnarmálaráðherra Atlantshafsbandalagsins, sem haldinn var fyrir tveimur vikum, hefði verið lögð áhersla á það að það þyrfti að huga aftur betur að vörnum bandalagsins á Norður-Atlantshafi. „Ef það er efnisflokkur sem þarfnast meiri áherslu og forgangsröðunar þá er það í vörnum Norður-Atlantshafs,“ sagði Gottemoeller.

Gottemoeller tók fram að á tímum kalda stríðsins hefði Ísland verið miðpunktur varna á Atlantshafi, bæði við eftirlit með lofti en einnig undir höfunum. Nefndi hún sem dæmi um þessa nýju sýn innan bandalagsins, að hún hefði ekki heyrt minnst á GIUK-hliðið svonefnda í langan tíma, þar til það hefði aftur skotið upp kollinum nýlega. Ástæðan fyrir því væri aukin ágengni rússneska flotans og flughersins á Norður-Atlantshafssvæðinu, sem hefði einnig sést í Eystrasalti.

Gottemoeller vék aftur að fundi varnarmálaráðherranna og sagði að þar hefði í raun nýtt verkefni verið lagt fyrir aðildarríki bandalagsins, þar sem þau þyrftu að horfa á það hvað ætti að vera í forgangi í vörnum Norður-Atlantshafs, hvaða ógnum bandalagið stæði frammi fyrir þar og hvað þyrfti að gera til þess að mæta þeim.

Hún bætti við að það sem hún teldi að helst þyrfti að styrkja væru loftvarnir og eftirlit með lofti. Gottemoeller sagði að Ísland hefði verið lykilaðili í slíku eftirliti nánast frá stofnun bandalagsins, og að sú aðstaða sem hér hefði verið byggð upp gæti leikið stórt hlutverk. Verkefni Atlantshafsbandalagsins væri hins vegar að sjá til þess að það væri samhangandi loftvarnaeftirlit frá Kanada og alla leið yfir Atlantshafið.

„Tíminn fram undan verður mikilvægur. Ég er ánægð með að bandalagið hafi vaknað til lífsins, því að í hreinskilni sagt hefur það ekki hugsað mikið um þetta svæði í hérumbil áratug,“ sagði Gottemoeller og bætti við að auk loftvarnaeftirlits myndi þurfa þjálfunaræfingar og meira af því tagi til þess að styðja við hina nýju áherslu bandalagsins á Norður-Atlantshafsins.

Í fyrirlestri sínum ræddi Gottemoeller mikilvægi alþjóðasamstarfs fyrir Atlantshafsbandalagið á miklum óvissutímum. Nánar verður rætt við Gottemoeller á síðum Morgunblaðsins á morgun, fimmtudag.

Sjá má upptöku af fyrirlestrinum á vef Norræna hússins hér.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert