Sjálfsskaði stúlkna hefur aukist

Sjálfsskaði og hugsanir um sjálfsskaða hafa aukist hjá ungu fólki …
Sjálfsskaði og hugsanir um sjálfsskaða hafa aukist hjá ungu fólki síðustu ár. mbl.is/Ómar

Hugsanir um sjálfsskaða og sjálfsskaði hefur aukist meðal stúlkna síðustu ár. Færri meta andlega líðan sína góða eða mjög góða árið 2016 en árin á undan. Ungu fólki sem er utan skóla líður verr en þeim sem eru í framhaldsskóla. Þetta kemur fram í nýrri rannsókn Rannsókna og greininga á andlegri líðan ungmenna á framhaldsskólaaldri sem Ingibjörg Eva Þórisdóttir sérfræðingur greindi frá á fundi samtakanna Náum áttum í morgun um einmanaleika og sjálfsskaðandi hegðun ungs fólks. 

Um 13% stúlkna sögðust hafa skaðað sig fimm sinnum eða oftar yfir ævina árið 2016 en árið 2010 var hlutfallið 4%. Fleiri stelpur sem voru utan skóla en í framhaldsskóla sögðust hafa skaðað sig fimm sinnum eða oftar. Um 34% stúlkna yngri en 18 ára og tæplega 40% stúlkna eldri en 18 ára sem sögðust hafa skaðað sig fimm sinnum eða oftar voru utan skóla. Á móti 13% stúlkna sem eru yngri en 18 ára og 16% stúlkna eldri en 18 ára sem voru í framhaldsskóla. Þess ber að geta að í rannsókninni eru mun færri einstaklingar á bak við tölurnar um þann hóp sem er utan skóla en í framhaldsskóla. 

„Niðurstöðurnar eru nokkuð sláandi sérstaklega varðandi sjálfsskaða stúlkna. Við vonum að þetta eigi eftir að nýtast í frekari vinnu með ungu fólki,“ segir Ingibjörg Eva.

Fleiri eru einmana og upplifa stúlkur sig frekar einmana en …
Fleiri eru einmana og upplifa stúlkur sig frekar einmana en strákar. mbl.is/Eggert

Sjálfsskaði drengja stendur í stað

Sjálfsskaði hjá drengjum hefur lítillega aukist frá árinu 2004 en þá var hann 3% en hefur verið 4% frá 2010 til 2016. Hærra hlutfall er á meðal þeirra drengja sem ekki eru í skóla sem sögðust hafa skaðað sig fimm sinnum eða oftar.

Fleiri stúlkur segjast hafa hugleitt sjálfsskaða en drengir. Um 22% stúlkna hafa hugleitt að skaða sjálfan sig fimm sinnum eða oftar árið 2016 en 9% drengja. Mun minni munur var á milli kynjanna árið 2010 en þá höfðu 11% drengja íhugað að gera það en 13% stúlkna.  

Færri meta andlega líðan góða 

Færri meta andlega líðan sína góða eða mjög góða árið 2016 en árin á undan. Talsverður munur á milli kynja og hefur hann aukist. 57% stúlkna og 74% drengja meta andlega heilsu sína góða eða mjög góða árið 2016. Árið 2004 var minni munur milli kynjanna eða 82% drengja og 74% stúlkna sem mátu andlega heilsu sína góða eða mjög góða. 

Þeir sem fundu fyrir einkennum þunglyndis og kvíða hefur einnig fjölgað síðustu ár. Fleiri ungmenni sem voru utan skóla en í framhaldsskóla voru kvíðnari og fundur fyrir einkennum þunglyndis. Munur var á milli kynjanna og fundu fleiri stúlkur en drengir fyrir einkennum kvíða og þunglyndis. Á meðan lítil breyting var milli ára hjá drengjum á einkennum þunglyndis og kvíða var munurinn meiri hjá stúlkum.

Ingibjörg Eva Þórisdóttir sérfræðingur greindi frá nýjustu rannsókn Rannsókna og …
Ingibjörg Eva Þórisdóttir sérfræðingur greindi frá nýjustu rannsókn Rannsókna og greininga um andlega líðan ungmenna á framhaldsskólaaldri á fundi samtakanna Náum áttum í morgun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fleiri einmana  

Frá árinu 2004 til 2016 hefur hlutfall þeirra sem var oft einmana síðastliðna viku hækkað. Einnig var munur milli kynja, 13,9% stúlkna og 7,3% stráka voru einmana en árið 2004 voru það 6,4% stúlkna og 4,4% stráka. Stúlkur utan skóla komu mun verr út en nemendur í skóla.      

Þeir sem tóku þátt í rannsókninni voru nemendur í framhaldsskóla sem mættu í dagskóla á könnunardegi og ungmenni 16 til 20 ára sem ekki sækja nám við hefðbundna framhaldsskóla. 

Við mat á andlegri líðan í rannsókninni var notast við 10 atriða kvarða á einkenni þunglyndis, 3 atriða kvarða á einkenni kvíða og þegar spurt var um andlega heilsu var spurt: Hversu góð er andleg heilsa þín þar sem hægt var að velja valmöguleika frá mjög góðri til lélegrar.   

Á fundinum ræddi Bóas Valdórsson, sálfræðingur við Menntaskólann í Hamrahlíð, um andlega líðan framhaldsskólanema og þær breytingar sem verða í lífi þeirra á þessu tímabili.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert