Skjálftahrina í Bárðarbungu

Bárðarbunga.
Bárðarbunga. mbl.is/Árni Sæberg

Skammvinn jarðskjálftahrina mældist í suðurbrún Bárðarbungu öskjunnar í nótt. Stærstu skjálftarnir voru 3,9 og 4 stig.

Á vef Veðurstofu Íslands kemur fram að hrinan hófst  um 3:50 í nótt. Um tugur skjálfta mældust í hrinunni, þar af voru þrír yfir þremur stigum. Enginn órói hefur fylgt í kjölfarið og verður svæðið vaktað vel.

Um 370 jarðskjálftar voru staðsettir með SIL-mælakerfi Veðurstofu Íslands 27. febrúar til 5. mars sem eru talsvert fleiri en vikuna á undan þegar 280 jarðskjálftar voru staðsettir. Meiri skjálftavirkni var á flestum svæðum nema Mýrdalsjökli þar sem skjálfavirkni mældist minni en vikuna á undan. Stærsti skjálfti vikunnar var 4,1 að stærð í Bárðarbungu í hrinu sem varð þann 1. mars. Alls mældust fimm skjálftar stærri en 3,0 í hrinunni. Minni virkni var í Kötlu en vikuna á undan. Þrír smáskjálftar mældust við Heklu í vikunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert