Óbreytt ummæli ráðherra grafalvarleg

Katrín Jakobsdóttir spurði út í orð Benedikts Jóhannessonar á Alþingi.
Katrín Jakobsdóttir spurði út í orð Benedikts Jóhannessonar á Alþingi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Katrín Jakobsdóttir, þingmaður og formaður VG, ræddi um orð Benedikts Jóhannessonar, fjármála- og efnahagsráðherra í viðtali við Bylgjuna fyrr í vikunni í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í morgun. Þar sagði Benedikt m.a. að það hafi verið siðlaust af Alþingi að samþykkja ófjármagnaða samgönguáætlun.

Katrín sagði Alþingi ekki geta setið undir þessum ummælum. „Ef þessi ummæli standa óbreytt gagnvart Alþingi er það grafalvarlegt mál. Það er spurning hvort að hæstvirtur ráðherra vilji nýta tækifæri núna  til þess að endurskoða þessa afstöðu sína og taka þessi orð sín um siðleysi löggjafasamkundunnar til baka.“

Benedikt sagði í svari sínu að honum fyndist leitt hversu miklu uppnámi orð hans í umræddu viðtali hafi valdið. „Sérstaklega því ég heyri í umræðum að menn virðast að mestu leyti efnislega sammála í málinu en umræðan snýst að mestu leyti um orðalag,“ sagði Benedikt.

Benti hann á orð Kolbeins Óttarssonar Proppé í viðtali við Fréttatímann fyrr í mánuðinum þar sem hann kallar samgönguáætlunina „innantómt kosningaplagg“ og „hrein og klár svik“.

„Það er greinilegt að ýmsum hefur þótt þetta mál þess eðlis að ástæða sé til þess að nota stór orð. Ég hygg að málefnið sem við erum hér með sé þess eðlis að það sé eðlilegt að horfa á aðdragandann,“ sagði Benedikt og benti á að skömmu fyrir samþykkt samgönguáætlunar var fjármálaáætlun samþykkt á Alþingi.  „Í fjármálaáætlun var ekki svigrúm fyrir samgönguáætlun og þetta vissu menn.“

Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra.
Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þá vitum við það“

„Þá vitum við það,“ sagði Katrín þegar hún kom aftur í pontu. „Ráðherra finnst í lagi að kalla löggjafasamkunduna siðlausa þá liggur það bara fyrir. Þetta er ekki spurning um orðalag heldur voru þetta mjög stór orð sem ráðherra lét falla og þá liggur bara fyrir að honum finnst þetta eðlilegur talsmáti gagnvart Alþingi. En hann situr einmitt í umboði þess sama Alþingis,“ sagði Katrín.

Nefnir hún að í sama viðtali hafi Benedikt jafnframt sagt að á þeim tíma sem samgönguáætlun var samþykkt af „stjórnlausu þingi“ því það var engin ríkisstjórn með meirihluta á þeim tíma sem fjárlög voru samþykkt.

„Er það skoðun ráðherrans að ríkisstjórnin stjórni Alþingi og ef ekki sé ríkisstjórn með meiri hluta á bak við sig sé Alþingi stjórnlaust? Er þá Alþingi undir stjórn núna? Og undir stjórn hvers?“ spurði Katrín.

„Drukknaði ég?“

Benedikt kom í pontu og sagði að aftur snerist umræðan um orðaval og þegar hann sagði stjórnlaust þing hefði hann frekar átt að segja ríkisstjórnarlaust þing. „Þarna var ég að vísa í að það var ekki starfandi ríkisstjórn með meirihluta. Þarna er aftur verið að gera mikið úr orðum þar sem meiningin var alveg ljós og hefði verði ljósari mörgum þingmönnum hefðu þeir hlustað á viðtalið,“ sagði Benedikt.

Sagði hann jafnframt mikilvægt að sýna Alþingi virðingu. „Ég held að það  sé mikilvægt að það komi fram að ég hef ekki sagt það að Alþingi sé siðlaust. auðvitað sitt hvað að segja að eitthvað gerist nánast eða gerist,“ sagði Benedikt og bætti við : „Ég drukknaði nánast á afmælisdeginum mínum. Drukknaði ég? Nei ég drukknaði ekki. Ég lenti nánast í árekstri. Lenti ég í árekstri? Það gerði ég ekki. Þetta er grundvallarmunur,“ sagði Benedikt.

Sakaði ráðherra um útúrsnúning

Síðar í óundirbúna fyrirspurnartímanum kom Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingmaður VG í pontu. Þar sagði hann Benedikt hafa snúið úr orðum sínum í fyrrnefndu viðtali við Fréttatímann. 

„Ég talaði um það að þeir þingmenn sem samþykktu bæði samgönguáætlun og fjárlög hlytu að líta á samgönguáætlunina sem marklaust kosningaplagg," sagði Kolbeinn. „Þar af eru 11 þingmenn og þar af 3 samráðherrar hæstvirts ráðherra. Ég er betur alinn upp en svo að ég kalli þá ráðherra siðlausa þó ég skeyti atviksorðinu nánast þar á undan.“

Þegar að Benedikt kom næst í pontu sagði hann að honum þætti leitt að hafa „valdið þingmanni uppnámi með því að vitna í orð hans í þessu viðtali.“

Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingmaður VG.
Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingmaður VG. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert