Starfsemi Brúneggja flutt í annað félag

Félagið var lýst gjaldþrota 3. mars.
Félagið var lýst gjaldþrota 3. mars. mbl.is/Eggert

Starfsemi Brúneggja fluttist yfir í annað félag skömmu áður en eggjaframleiðandinn var lýstur gjaldþrota þann 3. mars síðastliðinn. Þetta kemur fram á vef Ríkisútvarpsins, þar sem segir að ekki fáist uppgefið hverjir nýir eigendur eru, en að þeir muni vera úr hópi kröfuhafa.

Haft er eftir Helga Birgissyni, skiptastjóra þrotabúsins, að engir fuglar séu á hans forræði þar sem allur bústofninn hafi verið seldur áður en fyrirtækið var lýst gjaldþrota.

Segir þá að félagið sem hafa keypt fuglana heiti Gjáholt ehf. og hafi áður verið í eigu forsvarsmanna Brúneggja, en það muni nú vera í eigu kröfuhafa. Gjáholt hafi þá tekið yfir 40 milljóna króna lán sem Brúnegg tók í kjölfar umfjöllunar Kastljóss, og með þeim hætti hafi Brúnegg fengið fullt verð fyrir fuglana.

Stjórnarformaður Gjáholts er Sigurður Berntsson, starfsmaður verðbréfafyrirtækisins Arev. Segir hann að sér sé ekki heimilt að gefa upp hverjir eigi félagið, og þar með eggjabúið, en að forsvarsmenn Brúneggja séu ekki meðal eigenda.

Sjá nánar á vef RÚV.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert