„Þeim verður ekki stýrt“

„Það verður að horfa á þetta út frá því að …
„Það verður að horfa á þetta út frá því að farþegar koma hérna af fúsum og frjálsum vilja. Þeim verður ekki stýrt. Þeir geta hins vegar keypt sér þá sjálfsprottnu þjónustu sem er í boði og vissulega þarf að verðleggja hana,“ sagði Vilhjálmur. mbl.is/Ómar Óskarsson

Aðgangsstýring í ferðaþjónustu var til umræðu á Alþingi í dag. Eins og svo oft áður var skipst á skoðunum um ágæti hennar en meðal annars var kallað eftir langtímastefnu í þessum málaflokki og greiningu á vandanum í heild.

Einar Brynjólfsson, þingmaður Pírata sagði það í sínum huga alveg ljóst að aðgangsstýring væri nauðsynleg. Nefndi hann að hún væri í fyrsta lagi nauðsynleg náttúrunnar vegna, til að huga að öryggi ferðamanna og af efnahagslegum ástæðum.

„Forveri ráðherrans dró lappirnar“

„Við verðum að koma á skattheimtu eða gjaldtöku af ferðamönnum með einhverju móti, hvað svo sem hún kallast. Við verðum að hraða innviðauppbyggingu um land allt svo jafna megi öll þau neikvæðu áhrif jafnt sem jákvæðu áhrif sem gríðarlegur fjöldi ferðamanna hefur á íslenskt hagkerfi. Þetta verðum við að gera jafnvel með kvótasetningu á viðkvæmustu stöðunum, eins og hæstvirtur þingmaður Ari Trausti Guðmundsson kom inn á,“ sagði Einar.

Þá sagðist hann vilja hvetja Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur, ráðherra ferðamála til góðra verka og til skjótra viðbragða.

„Það er nefnilega þannig að forveri ráðherrans dró lappirnar svolítið í þessum málum og ríkisstjórnin öll, sú sem sat hér síðast. Það er synd hvernig farið var með tækifæri sem fóru forgörðum þá,“ sagði Einar.

Hanna Katrín Friðriksson, þingflokksformaður Viðreisnar.
Hanna Katrín Friðriksson, þingflokksformaður Viðreisnar. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Kominn tími til að heyra stefnu Sjálfstæðisflokksins

Hanna Katrín Friðriksson, þingmaður  Viðreisnar sagði aðgangsstýringu óneitanlega „svolítið sérstakt orð að viðhafa um frjálsa för fólks, erlendra ferðamanna, um landið okkar.“ Hún sagði jafnframt að það þyrfti að vanda vel til verka þegar það kæmi að því að byggja ferðaþjónustuna upp enn frekar í sátt við fólk og náttúru.

„Þar er aðgangsstýringin mikilvæg en sú skýring getur, eins og hér hefur komið fram, falist í svo mörgu; uppbyggingu samgöngukerfis, fjölbreytni í menningarþjónustu og svo framvegis.“ Nefndi hún einnig mikilvægi þess að taka upp skynsamlega gjaldtöku og nefndi bílastæðagjöld í því samhengi.

Sigurður Ingi spurði ráðherra hvenær kæmi í raun og veru …
Sigurður Ingi spurði ráðherra hvenær kæmi í raun og veru „alvöru stefnumótun, heildstæð, um það hvernig við tökum á móti 2 milljónum ferðamanna og hvernig við náum að nýta allt landið þannig að það verði þessi sjálfbærnigrundvöllur.“ mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sigurður Ingi Jóhannsson, þingmaður Framsóknarflokksins og fyrrverandi forsætisráðherra sagði alla sammála um það að eitthvað þurfi að gera. Vitnaði hann í orð Þórdísar fyrr í sömu umræðu þar sem hún sagði að það gætu verið staðir ekki er eingöngu hægt að stýra með gjaldtöku heldur ítölu.

„En hvernig á að stýra með gjaldtöku?“ spurði Sigurður Ingi. „Er verið að tala um mismunandi komugjöld eftir því hvort menn lenda á Egilsstöðum, Akureyri eða í Keflavík, á mismunandi tímum til að reyna að hvetja til þess að menn komi til landsins þegar færri eru? Er hugmyndin að beita bílastæðagjöldum og þá hvernig, hvaða skilgreiningar liggja þar til grundvallar? Það þarf líka að vera einhver tilgangur í því, þetta þarf að vera samhæft.“

Þá spurði hann jafnframt hvenær kæmi í raun og veru „alvöru stefnumótun, heildstæð, um það hvernig við tökum á móti 2 milljónum ferðamanna og hvernig við náum að nýta allt landið þannig að það verði þessi sjálfbærnigrundvöllur.“

Þá bætti hann við að Sjálfstæðisflokkurinn hafi verið með þennan málaflokk í tæp fjögur ár „og það er því kannski kominn tími á að heyra hver stefna Sjálfstæðisflokksins er í þeim málum, greina vandann í heild.“

Lítill vandi að skattleggja þjónustuna

Vilhjálmur Bjarnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins sagði oft í umræðu um ferðaþjónustu litið á það sem er gert í greininni sem sérstakt vandamál en hann líti nú á það sem verkefni.

„Ég held að engin atvinnugrein á Íslandi sé jafn sjálfsprottin og ferðaþjónusta. Það að kalla eftir opinberri afstöðu eða stefnumótun stjórnvalda held ég sé býsna erfitt vegna að þessi grein verður alltaf sjálfsprottin, í fyrsta lagi út frá þeim neytendum sem koma og það verður að takast á við það. Það er vissulega hægt að viðhalda sjálfbærni í þessari grein en við þurfum að vera við því búin, og það að bregðast alltaf við einhverri tekjuöflun — það verða engar tekjur til fyrir ríkissjóð af engu,“ sagði Vilhjálmur.

Benti hann á að það þyrfti að horfa til virðisaukaskattstekna af ferðaþjónustunni. „Það verður að horfa á þetta út frá því að farþegar koma hérna af fúsum og frjálsum vilja. Þeim verður ekki stýrt. Þeir geta hins vegar keypt sér þá sjálfsprottnu þjónustu sem er í boði og vissulega þarf að verðleggja hana,“ sagði Vilhjálmur. „Árið 2001 var því spáð að ferðamenn á Íslandi yrðu u.þ.b. ein milljón árið 2016. Þá var reiknað með 8% aukningu, en í stað 8% aukningar varð 12% aukning, það skilaði af sér 1.800 þúsund ferðamönnum. Það er lítill vandi að skattleggja hér þá þjónustu, eins og t.d. gistináttaþjónustu, það er gjald sem fólk þekkir í öllum löndum.“

Vilhjálmur Bjarnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Vilhjálmur Bjarnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Ófeigur Lýðsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert