Yngri eru frekar einmana

Meiri einmanaleiki kemur fram meðal yngri en eldri Íslendinga. Þetta kemur fram í netkönnun embættis landlæknis á líðan ungra Íslendinga. Sigrún Daníelsdóttir, sálfræðingur og verkefnastjóri geðræktar hjá embættinu, greindi frá þessu á fundi samtakanna Náum áttum um einmanaleika og sjálfsskaðandi hegðun ungs fólks í gær.

„Einmanaleiki er að upplifa skort á félagslegum tengslum og nánd við aðra. Einmanaleiki er skaðlegt ástand ef það varir í lengri tíma,“ segir Sigrún. Aðrar rannsóknir sýni ýmist að einmanaleiki sé mestur á yngri árum eða þá að stöðunni megi líkja við bókstafinn U þegar litið er til aldurs fólks. Þeir sem eru í yngsta aldurshópnum og í þeim elsta eru mest einmana, að sögn Sigrúnar.

Hærri tölur sjást þegar litið er til ungra karlmanna en ungra kvenna og skiptir máli hvort fólk er í sambandi eða ekki. Mun meiri munur sé á einmanaleika karla eftir hjúskaparstöðu en meðal kvenna. Einn af hverjum fimm karlmönnum sem ekki eru í sambúð eða hjónabandi finnur oft eða mjög oft fyrir einmanaleika en aðeins 2% þeirra sem eru giftir eða í sambúð.

Mikið rót á þessu aldursskeiði

En af hverju er unga fólkið meira einmana? „Það er margt sem getur átt þátt í að útskýra þetta. Ungt fólk er að stíga sín fyrstu skref inn í fullorðinsárin. Það er að fara að heiman og það er margfalt meira rót á lífi þess á þessu aldursskeiði en oft á öðrum. Það er ekkert undralegt að tilfinningalífið sé róstusamt á þessum tíma þegar framtíðin bíður þeirra og þau vita ekki endilega hvert þau stefna,“ segir Sigrún.

Sigrún Daníelsdóttir, sálfræðingur og verkefnastjóri embættis landlæknis.
Sigrún Daníelsdóttir, sálfræðingur og verkefnastjóri embættis landlæknis. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hún bendir á að vísbendingar undanfarinna missera um aukna vanlíðan hjá ungu fólki sé ekki séríslenskt fyrirbæri, svipaðar niðurstöður hafi einnig komið fram meðal nágrannaþjóða. „Þetta er ekki alltaf spurning um klínískar geðraskanir en ungmenni vilja hafa aðgengi að aðstoð hvort sem vanlíðan þeirra uppfyllir greiningarviðmið eða ekki. Þau kalla einnig eftir markvissri kennslu í skólum sem eflir geðheilsu þeirra og undirbýr þau fyrir lífið,“ segir Sigrún og vitnar til norrænar ráðstefnu um líðan ungs fólks sem fór fram í Ósló í síðustu viku á vegum norrænu ráðherranefndarinnar. Þar tók ungt fólk virkan þátt til jafns við aðra, til dæmis stjórnmálamenn og sérfræðinga, og það viðraði þessar skoðanir.

Ungmenni vilja læra aðferðir til að efla eigin vellíðan

Sigrún tók í sama streng og Bóas Valdórsson sálfræðingur í MH á fundinum og kallaði eftir námsefni og markvissri kennslu fyrir ungt fólk til að hjálpa því að fóta sig í lífinu. „Þessi krafa var mjög skýr hjá ungmennunum á ráðstefunni. Þau vilja læra aðferðir til þess að efla eigin vellíðan og lífsánægju,“ sagði Sigrún og ítrekaði að skólinn þyrfti að verða vettvangur geðræktar því geðheilsu eins og aðra heilsu þarf að rækta á öllum aldri. Sérstaklega þyrfti að gefa gaum að því sem ungt fólk væri að ganga í gegnum.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert