Mátti ekki tæpara standa

Slökkviliði og lögreglu tókst naumlega að bjarga konu og karli …
Slökkviliði og lögreglu tókst naumlega að bjarga konu og karli út úr brennandi íbúð í nótt. Víkurfréttir

Ung kona og karl sluppu naumlega út úr brennandi íbúð í Reykjanesbæ í nótt. Konunni var bjargað út af lögreglu en reykkafarar komu manninum til bjargar þar sem lögregla þurfti frá að hverfa vegna reyks og hita. Þau voru bæði flutt á Landspítalann og að sögn lögreglu mátti engu muna að enn verr færi.

Lögreglu á Suðurnesjum og brunavörnum Suðurnesja barst tilkynning um eldsvoða að Vesturgötu 14 í Reykjanesbæ skömmu fyrir miðnætti og var allt tiltækt lið sent á staðinn. Eldurinn var í íbúð á efri hæð í fjögurra íbúða húsi. Ekki er vitað um eldsupptök en bendir allt til þess að þau hafi verið í eldhúsi íbúðarinnar. 

Þegar lögreglan kom á vettvang, nokkrum mínútum á undan slökkviliði, tókst henni að bjarga konunni út úr brennandi íbúðinni en varð frá að hverfa þegar bjarga átti manninum vegna hita og reyks. Slökkviliðsmenn og lögregla hlúðu að konunni á vettvangi en hún var síðan flutt með sjúkrabíl á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og þaðan á Landspítalann í Fossvogi. 

Þrír reykkafarar fóru inn í brennandi íbúðina og  fundu manninn rænulítinn þar. Þeir gáfu honum súrefni strax inni í íbúðinni og komu honum síðan út þar sem annar sjúkrabíll beið. Þar var haldið áfram að hlúa að manninum og hann einnig fluttur á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og þaðan á Landspítalann. 

Greiðlega gekk að slökkva eldinn en íbúðin er mjög illa farin vegna elds og reyks. Aðrir íbúar hússins hafa fengið að snúa aftur til síns heima en engum þeirra varð meint af að sögn lögreglu.

Lögregla og slökkvilið björguðu ungu fólki út úr brennandi íbúðinni.
Lögregla og slökkvilið björguðu ungu fólki út úr brennandi íbúðinni. Víkurfréttir

Varðstjóri í brunavörnum Suðurnesja er á sama máli og varðstjóri í lögreglunni – ekki hefði mátt tæpara standa og stórkostlegt að það tókst að bjarga fólkinu út. Þegar reykkafararnir fóru inn í íbúðina var gríðarlega mikill reykur þar inni og enn eldur í eldhúsi íbúðarinnar. Lögreglumennirnir lögðu sig því í mikla hættu við að bjarga konunni út úr íbúðinni. Ljóst má vera að fyrir snarræði lögreglu og slökkviliðs var komið í veg fyrir að verr færi en allt tiltækt lið bæði lögreglu og slökkviliðs fór á vettvang. Slökkviliðið fór bæði á dælubíl og sjúkrabíl í útkallið sem gerði það að verkum að þegar komið var út með fólkið var allur búnaður á staðnum til þess að veita þeim þá fyrstu hjálp sem veita þurfti. 

Ekki er vitað um líðan þeirra en Landspítalinn er hættur að veita fjölmiðlum upplýsingar um líðan sjúklinga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert