„Myglan fylgir mannkyninu“

Rakaskemmdir á veggjum og í glugga í húsnæði Landspítalans.
Rakaskemmdir á veggjum og í glugga í húsnæði Landspítalans. mbl.is/Golli

Rakaskemmdir, myglusveppur og byggingagallar hafa mikið verið í umræðinu síðustu mánuði enda hefur starfsfólk og nemendur fjölmargra fyrirtækja og stofnana þurft að flytja starfsstöðvar vegna rakavandamála. Að sögn Jóns Guðmundssonar, fagstjóra bygginga hjá Mannvirkjastofnun, má minnka líkur á rakaskemmdum með ákveðnum leiðum en engum hefur þó enn tekist að stöðva slíka skemmdir algjörlega.

Jón var meðal nokkurra sérfræðinga sem héldu í dag erindi á ráðstefnu um Byggingagalla, raka og mygluvandamál á vegum Háskóla Íslands, Byggingavettvangs, Sænska sendiráðsins, Nýsköpunarmiðstöðvar og Mannvirkjastofnunar.

Erindi Jóns bar titilinn „Er hægt að stöðva rakaskemmdir?“ en í samtali við mbl.is segir hann erfitt að gefa afdráttarlaust við spurningunni.

„Okkur hefur ekki tekist það hingað til, né neinum í heiminum, en það er hægt að minnka skaðann með réttri hönnun, framkvæmd og notkun á byggingum. Maður vill ekki fullyrða að það sé hægt [að koma í veg fyrir rakaskemmdir] því að í rauninni vantar okkur fræðilegar rannsóknir um hvað er hægt að gera. Við vitum þó að það er hægt að komast nálægt því ef við hönnum rétt, framkvæmum rétt og notum rétt.“

Guð varaði við rakaskemmdum

Jón Guðmundsson verkfræðingur er fagstjóri bygginga hjá Mannvirkjastofnun.
Jón Guðmundsson verkfræðingur er fagstjóri bygginga hjá Mannvirkjastofnun. Mynd/Jón Guðmundsson

Jón hóf erindi sitt á að vitna í Biblíuna en samkvæmt Gamla testamentinu varaði sjálfur Guð við áhrifum rakaskemmda á heilsu fólks.

„Samkvæmt þriðju bók Móses talaði Drottinn við Móses og Aron um hreinsun húsa og holdsveiki. Í nýrri enskri þýðingu er talað um myglu. Mósebók segir þá að ef það er komin mygla í híbýlin skaltu fjarlægja hana. Ef það dugar ekki skaltu fjarlægja hið sýkta byggingarefni og setja nýtt í staðinn. Ef það dugar ekki skaltu rífa húsið. Þannig vill Herrann taka á þessu.“

Að sögn Jóns erum við í raun ennþá í sama farinu. „Myglan fylgir okkur mannkyninu, hún er úti um allt. Gróin eru úti um allt.“

Loftræsting lykilatriði

Spurður um hvað við getum gert sem notendur bygginga segir Jón að góð loftræsting sé lykilatriðið.

„Ef að þú ert með hús sem er viðkvæmt skiptir máli að loftræsa og þrífa vel. Það hefur eitthvað gerst á síðustu 10 árum, kannski höfum við hætt að opna glugga út af þjófahræðslu. Ég veit það ekki en loftræsting skiptir rosalegu máli upp á raka, sem og að halda húsinu við og þrífa.“

Myglusveppurinn býr um sig þar sem er raki og lífræn …
Myglusveppurinn býr um sig þar sem er raki og lífræn efni. Hann getur nærst á timbri, dúkalími, striga, pappa og jafnvel flísalími. Ljósmynd/Hús & heilsa

Frétt mbl.is: Raki, mygla og yfirgefin hús

Ábyrgðin er þó ekki eingöngu á notendum bygginganna því eins og Jón segir eru rétt hönnun og rétt framkvæmd einnig grundvöllur þess að draga úr líkum á rakaskemmdum.

„Við þurfum öll, framkvæmdaraðilar, hönnuðir og bara allir sem koma nálægt byggingum, að hugsa meira um hvað við erum að gera, ekki hvað við erum að græða.“

Þola jarðskjálfta vel

Byggingar- og hönnunargallar eru meðal þeirra mörgu og fjölbreyttu atriða sem geta orsakað rakaskemmdir. Íslenskar byggingar eru þó að mörgu leyti vel gerðar og rannsóknir hafa meðal annars sýnt fram á að jarðskjálftaþol þeirra er einkar gott.

Bjarni Bessason, prófessor í byggingarverkfræði við Háskóla Íslands.
Bjarni Bessason, prófessor í byggingarverkfræði við Háskóla Íslands. Mynd/Bjarni Bessason

„Í stuttu máli hafa þær staðist þessa jarðskjálfta mjög vel af sér og það eru í raun og veru ekki neinir gallar sem hægt er að tala um í því samhengi. Ef við berum okkar húsbyggingar saman við til dæmis suður-evrópskar byggingar sem hafa verið að lenda í jarðskjálftum af svipaðri stærð þá hafa okkar verið að standa sig mjög vel. Þær hafa hvorki verið að hrynja né falla saman heldur staðið þessa jarðskjálfta af sér.“

Þetta segir Bjarni Bessason, prófessor í byggingaverkfræði við Háskóla Íslands, í samtali við mbl.is en hann erindi hans á ráðstefnunni fjallaði um jarðskjálfta sem orsök tjóna á húsnæði á Íslandi.

Engin tengsl milli jarðskjálftaþols og rakaskemmda

„Íslenskar byggingar hafa fengið góða einkunn hvað jarðskjálftaþol varðar,“ segir Bjarni en hann segir enga tengingu vera milli jarðskjálftaþols bygginga og líkna á rakaskemmdum. Bjarni segi að ástæðu þess að íslenskar byggingar þoli jarðskjálfta vel megi rekja til þeirrar byggingarhefðar sem myndast hafi á landinu.

Íslenskar byggingar fá góða einkunn hvað jarðskjálftaþol varðar.
Íslenskar byggingar fá góða einkunn hvað jarðskjálftaþol varðar. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

„Ég held að það sé fyrst og fremst byggingarhefðin. Steinsteypa er ríkjandi byggingarefni hérna, það eru svo sem líka timburhús en við erum með lítið sem ekkert af hlöðnum byggingum. […]

Framanaf voru menn kannski ekki að einblína fyrst og fremst á jarðskjálftaþol [við hönnun og framkvæmd bygginga] en rétt fyrir 1980 voru innleiddir jarðskjálftastaðlar á Íslandi. Þeir gera ákveðnar kröfur um lágmarksjarðbindingu og betri frágang og það hefur líka hjálpað þannig að nýrri byggingar eru að standa sig betur heldur en eldri byggingar.

Ef við förum í Dalvíkurskjálftann 1934 þá skemmdust hús miklu, miklu meira og svo ef við förum aftur á þar síðustu öld þar sem við vorum náttúrulega bara með torfhús, þá hrundu þau aftur og aftur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert