Uppljóstranir eru deilumál framtíðarinnar

Edward Snowden býr nú í Moskvu.
Edward Snowden býr nú í Moskvu. AFP

„Uppljóstranir eru pólitísk deilumál framtíðarinnar. Mál Snowdens vekur upp siðferðilegar og pólitískar grundvallarspurningar,“ segir Jón Ólafsson, prófessor við íslensku- og menningardeild, sem hefur fjallað talsvert um mál Snowdens meðal annars í tengslum við umræðu innan menningarfræði um andóf.

Á Hugvísindaþingi sem fram fer 10. og 11. mars í Háskóla Íslands verður málstofan um Snowden haldin að undirlagi Jóns og nefnist erindi hans: „Hakkari eða borgari: Falla gjörðir Snowdens undir „borgaralega óhlýðni“? Auk Jóns flytja Sævar Ari Finnbogason erindið: Uppljóstranir og áróður og Oktavía Hrund Jónsdóttir erindið: Uppljóstranir Snowdens og réttindi á 21.öld: friðhelgi einkalífs og borgaraleg þátttaka á stafrænum tímum.

Jón Ólafsson, prófessor við íslensku- og menningardeild.
Jón Ólafsson, prófessor við íslensku- og menningardeild.

Jón bendir á að uppljóstranir Snowdens og aðferðin sem hann beitti við þær sé svo óvenjuleg að það sé ekki hægt að fella skýran eða einhlítan dóm um hvað í þeim felist.

Stórflóð Snowdens

„Uppljóstranir Snowdens eru stórflóð frekar en leki. Hann sameinar að vissu leyti viðhorf og aðferð hakkarans annars vegar og borgarlegs atktívista hins vegar,“ segir Jón.

Hann bendir á að þess vegna er ekki hægt að víkja frá spurningum um mörk hins réttlætanlega: Eru uppljóstranirnar borgaraleg óhlýðni sem almennt er skilgreind sem réttlætanleg eða viðurkennd leið andófs. Það er gert fyrir opnum tjöldum og án þess að sá sem ábyrgðina ber fari í felur með það.

Það þarf líka að hugsa um markmiðið, segir Jón enn fremur. Borgaralegri óhlýðni er oft lýst sem lögbroti sem þó hefur þann tilgang að styrkja lögin. Hún er þannig hluti af vestrænni frjálslyndri umræðuhefð. Þessa orðræðu hefur Snowden tamið sér og sést í ummælum hans en hann er einnig eindreginn andstæðingur forsjárhyggju og íhlutunareðlis ríkisvalds.

Víða um heim hafa yfirvöld sett hörð viðurlög við brotum …
Víða um heim hafa yfirvöld sett hörð viðurlög við brotum á aðgangi að gögnum. mbl.is/Júlíus



Hörð viðurlög við brotum

Víða um heim hafa yfirvöld brugðist við stafrænni þróun með því að setja hörð viðurlög í gildi við brotum sem varða aðgang að eða notkun á rafrænum upplýsingum, að sögn Jóns. Hann nefnir sem dæmi að þeir sem eru dæmdir fyrir að birta upplýsingar, sem þeir jafnvel telja að eigi erindi við almenning og varði öryggi þeirra, eins og í tilfelli Snowdens, eigi iðulega yfir höfði sér jafnvel áratuga fangelsisvist.

Í þessu samhengi bendir Jón á mál Aarons Swartz, baráttumanns fyrir netfrelsi og eins stofnanda hinnar vinsælu vefsíðu Reddit.com. Hann var ákærður fyrir að hafa stolið miklu magni gagna úr gagnagrunni Jstore í gegnum tölvukerfi MIT-háskóla og ætlað að dreifa þeim ókeypis á net­inu í nafni netfrelsis. Hann átti yfir höfði sér 35 ára fangelsi og himinháar fjársektir fyrir meint brot sín. Hann féll fyrir eigin hendi áður en dómur féll. 

Aaron Swartz var baráttumaður fyrir netfrelsi.
Aaron Swartz var baráttumaður fyrir netfrelsi.

Swartz vildi birta gögnin meðal annars til að mótmæla því hvernig stórfyrirtæki hafa slegið eign sinni á birtingar og niðurstöður rannsókna sem hafa verið fjármagnaðar með almannafé og ættu að vera almannaeign.

Fyrirtæki vinna gegn hagsmunum almennings

„Aðgerð hans var táknræn því hann vildi benda á hvar þetta efni ætti heima: í opnum aðgangi. Þetta mál er dæmi um hvernig ríkisvaldið bregst við með harkalegum hætti sem nær langt út fyrir ramma hins eðlilega, jafnvel þótt viðurkennt sé að um brot sé að ræða,“ segir Jón. Þegar um akademísk verk er að ræða eru fyrirtæki iðulega að vinna gegn hagsmunum bæði almennings og vísindamanna með því að takmarka aðgang að rannsóknaniðurstöðum, að mati Jóns. 

mbl.is/Ómar

Þrátt fyrir að mál Snowdens og Swartz sé bundið við bandarískan veruleika sýna þau að uppljóstranir eru pólitísk deilumál sem munu sækja í sig veðrið í framtíðinni, að sögn Jóns, og bendir hann á nærtækt dæmi um afleiðingar Panamaskjalanna á íslenskt samfélag.

Í þessu samhengi bendir Jón á mikilvægi tölvulæsis sérstaklega þegar kemur að lagasetningu ríkisvaldsins. „Skilningur almennings á lagasetningu sem inniheldur flókin tæknileg atriði um aðgang að upplýsingum, höfundarrétt og fleira er takmarkaður og þess vegna vantar mótstöðu gegn því að sérhagsmunir ráði í raun ferðinni,“ segir Jón.

Vill hvorki upphefja hann né draga í svaðið

„Ég vil hvorki hefja Snowden upp til skýjanna né rakka hann niður í svaðið. Það er þrælerfitt að svara því hvort það sem Snowden gerði sé borgaraleg óhlýðni eða eitthvað annað og meira,“ segir hann spurður hvort gjörðir Snowdens falli undir borgaralega óhlýðni líkt og titill erindis hans ber með sér.

Snowden hafði áhrif með uppljóstrunum sínum en þau voru kannski ekki eins mikil og hann átti sjálfur von á. „Margir furða sig á því að uppljóstranirnar hafa leitt til lítilla breytinga og hvers vegna þær hafi ekki haft meiri áhrif,“ segir Jón.

Hann bendir á að þegar slíkt magn af upplýsingum kemur geti það tekið samfélagið talsverðan tíma að átta sig og líklega er það ekki fyrr en eftir einhvern tíma sem áhrifin koma í ljós. Í þessari viku birti Wikileaks gögn um aðferðir CIA til að njósna um einstaklinga í gegnum samskiptatæki. Það á eftir að koma í ljós hver áhrifin af því verða.

Ísland getur staðið framarlega

Jón segir Íslendinga geta staðið framarlega í upplýsingafrelsi og í því samhengi vitnar hann til Alþjóðlegrar stofnunar um upplýsinga- & tjáningarfrelsi, sem var stofnuð hér árið 2011. Stofnunin byggir á þingsályktunartillögu frá 2010.

Um markmið stofnunarinnar segir á vefsíðu hennar (immi.is): „Markmiðið með stofnuninni er að leita leiða til að styrkja tjáningarfrelsi, upplýsingamiðlun og útgáfufrelsi hérlendis sem og öfluga vernd fyrir heimildarmenn blaðamanna og afhjúpendur. Til að það geti orðið að veruleika þarf að undirbúa nauðsynlegar lagabreytingar eða nýja löggjöf sem byggir á bestu mögulegu löggjöf annarra þjóða.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert