Gerð krafa um að fólk sé synt

Silfra á Þingvöllum hefur notið mikilla vinsælda meðal ferðamanna.
Silfra á Þingvöllum hefur notið mikilla vinsælda meðal ferðamanna. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þeim níu rekstraraðilum sem bjóða upp á köfunarþjónustu í Silfru hafa nú verið kynntar nýjar og hertari reglur er varða köfun þar. Ólafur Örn Haraldsson þjóðgarðsvörður segir að einhugur hafi ríkt á meðal manna á fundinum og öllum ljóst að herða þurfi reglur og auka öryggi farþega í köfun og snorkli á Þingvöllum.

Á fundinum voru lagðar fram breytingar í fimm liðum sem lagt er til að taki gildi fyrir mánudagsmorgun. „Ef allt gengur upp og fyrirtækin ganga að þessum breytingum verður hægt að opna Silfru aftur á mánudag en annars heldur lokunin áfram,“ segir Ólafur Örn. Boðað hefur verið til nýs fundar í fyrramálið þar sem lagðar verða fram niðurstöður með þeim breytingum sem aðilar innan ferðaþjónustunnar lögðu til.

Ólafur Örn Haraldsson þjóðgarðsvörður.
Ólafur Örn Haraldsson þjóðgarðsvörður. mbl.is/Sigurður Bogi Sigurðsson

Krafa um reynslu af köfun í þurrbúningi 

Haraldur Örn segir þessar breytingar nokkuð íþyngjandi fyrir fyrirtækin þar sem gert er ráð fyrir hertari kröfum. Þær felast í fyrsta lagi í því að fækka þeim farþegum eða köfurum sem hver leiðsögumaður getur tekið með í djúpköfun og yfirborðsköfun en með því hefur hver leiðsögumaður betri yfirsýn yfir sína farþega. Í öðru lagi verður fest í sessi að menn kafi í þurrbúningi og hafi reynslu af köfun í slíkum búningi. Í þriðja lagi verður krafist læknisvottorða um það að líkamlegt og andlegt heilbrigði manna dugi til þess að stunda köfun. Í fjórða lagi verður reglum breytt er varða aðgangsstýringu þannig að köfun sé aðeins leyfð á ákveðnum tíma sólarhrings og köfurum betur dreift yfir daginn. Þá verða í fimmta lagi gerðar kröfur um það að fólk sé synt. „Jafnfurðulegt og það er kemur fólk þarna sem kann ekki að synda. Það eru mörg dæmi um að menn komi þarna og ljúgi til um að þeir séu syndir en enda svo í fáti þegar þeir átta sig á því að sund í tveggja gráðu heitu vatni er ekkert spaug,“ segir Ólafur Örn.

Ólafur Örn vonast til þess að hægt verði að opna …
Ólafur Örn vonast til þess að hægt verði að opna Silfru á mánudag. Ljósmynd Þröstur Njálsson.

Vonast eftir lagabreytingu 

Margir rekstraraðilanna hafa nú þegar tekið upp hluta þessara skilyrða en núna verða þau skrifuð inn í fyrirmæli sem Samgöngustofa leggur fram og rekstraaðilar verða nú að uppfylla. „Á fundinum sagði hver og einn frá sinni reynslu. Það voru skiptar skoðanir um hitt og þetta en mjög góð og fagleg umræða og góður hugur á fundinum. Þessi fyrirtæki hafa gríðarlega mikla reynslu og líta á það sem sinn hag að tryggja öryggi ferðamanna,“ segir Ólafur Örn.

Ólafur Örn leggur áherslu á að þjóðgarðurinn leggi allt sitt traust á að fyrirtækin samþykki þessar nýju reglur og séu tilbúin að bregðast við. Hann segist einnig vonast til þess að samþykkt verði frumvarp til laga þannig að unnt verði að fækka rekstraraðilum við Silfru. „Eins og er geta allir farið og kafað með fólki í Silfru. Ef af lagabreytingunni verður er um útboð á takmarkaðri auðlind að ræða. Þá fækkar rekstraraðilum og sennilega gestum í hlutfalli við það,“ segir Ólafur Örn.   

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert