Þarf að tryggja öryggi ferðamanna í landinu

Silfra á Þingvöllum hefur notið mikilla vinsælda meðal ferðamanna.
Silfra á Þingvöllum hefur notið mikilla vinsælda meðal ferðamanna. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við vinnum með þjóðgarðinum og þeim aðilum sem koma að þessum málum og erum algjörlega sammála þeirra aðgerðum og tökum undir þá nauðsyn að skoða vel hvernig á að standa að snorkli og köfun í Silfru,“ segir Jón Þór Gunnarsson, framkvæmdastjóri Arctic Adventures, sem býður upp á köfun í Silfru.

Lokað hefur verið á köfun í Silfru tímabundið í kjölfar þess að bandarískur karlmaður á sjötugsaldri lést í gær eftir að hafa verið að snorkla þar. Bannað verður að kafa í Silfru frá klukkan 9.00 í dag og til klukkan 8.00 á mánudag.

Greint er frá því á fréttavef RÚV að Björt Ólafsdóttir umhverfisráðherra sitji nú á fundi með fulltrúum frá Samgöngustofu og Þjóðgarðinum á Þingvöllum vegna málsins.

Annað banaslysið sem af er ári í Silfru  

Jón Þór segir óásættanlegt fyrir alla þegar slys sem þessi verða og segir fyrirtækið sammála þjóðgarðinum og eftirlitsaðilum um að endurskoða eigi þá ferla sem unnið er eftir. „Við erum að vinna á mörgum stöðum í landinu í tengslum við ferðaþjónustu og alltaf þegar eitthvað kemur upp á þarf að endurskoða hvernig að því er farið, til að tryggja öryggi ferðamanna í landinu,“ segir Jón Þór.

Þetta er annað banaslysið sem af er ári í Silfru en rúmur mánuður er liðinn síðan mjög sambærilegt slys varð. Jón Þór segir að eftir slysið í febrúar hafi skilyrði fyrir köfun verið hert til muna hjá Arctic Adventures sem hafi verið afar mikið framfaraskref.  

„Við búum í landi þar sem fólk sækist í alls konar afþreyingu og ferðmenn koma hingað til lands til að sækja slíka þjónustu. Í slíkri afþreyingu felst ákveðin áhætta en við þurfum öll að vinna í öryggismálum alls staðar á landinu, hvort sem það er í vegakerfinu, Silfru eða annars staðar. Við þurfum að vinna saman að því að auka öryggi í landinu til að geta tekið við ferðamönnum á öruggan hátt,“ segir Jón Þór.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert