65 björgunarsveitarmenn að störfum

Björgunarsveitarfólk að gera sig klárt fyrir leit í Kópavogi.
Björgunarsveitarfólk að gera sig klárt fyrir leit í Kópavogi.

Alls eru 65 björgunarsveitarmenn að störfum í Kársnesi og meðfram strandlengjunni þar en leitarsvæðið nær allt frá Seltjarnarnesi að Álftanesi. Formleg leit að Arturi Jarmoszko hófst í hádeginu en ekkert hefur spurst til hans síðan um mánaðamótin. Leitað er í bátum, með drónum auk þess sem gengið er meðfram ströndinni, að sögn Þorsteins G. Gunnarssonar, upplýsingafulltrúa Slysavarnafélagsins.

Guðmundur Páll Jónsson lögreglufulltrúi segir að enn sé verið að vinna úr gögnum úr síma Arturs en síminn var síðast tengdur neti aðfaranótt 1. mars. Síðan þá hefur síminn ekki verið notaður. Vettvangur leitarinnar tekur mið af upplýsingum úr símagögnum sem lögreglan hefur aflað með aðstoð símafélagsins. 

Síðast var vitað um ferðir Arturs í miðborg Reykjavíkur seint á þriðjudagskvöldinu 28. febrúar sl., líkt og fram kom á mynd í eftirlitsmyndavél, en nú er talið, vegna framkominna símagagna, að hann hafi farið til Kópavogs í framhaldinu og verið þar á ferð snemma aðfaranætur miðvikudagsins 1. mars.

Síðast er vitað um ferðir Artur Jarmoszkos 1. mars.
Síðast er vitað um ferðir Artur Jarmoszkos 1. mars.

Artur, sem er 25 ára og grannvaxinn, dökkhærður með stutt hár, 186 sm á hæð og með græn augu, er pólskur, en hefur búið á Íslandi um allnokkurt skeið. Talið er að hann sé klæddur í svarta úlpu eða mittisjakka, bláar gallabuxur og hvíta strigaskó.

Þeir sem geta gefið upplýsingar um ferðir Arturs, eða vita hvar hann er að finna, eru vinsamlegast beðnir um að hafa samband við lögregluna í síma 444-1000. Upplýsingum má einnig koma á framfæri í tölvupósti á netfangið gudmundur.pall@lrh.is eða í einkaskilaboðum á Facebook-síðu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Björgunarsveitir eru að störfum við Kársnesið í Kópavoginum.
Björgunarsveitir eru að störfum við Kársnesið í Kópavoginum.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert