645 kvótaflóttamenn frá árinu 1956

Kvótaflóttamenn eru þeir sem stjórn­völd ákveða að taka á móti …
Kvótaflóttamenn eru þeir sem stjórn­völd ákveða að taka á móti í samstarfi við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna. Í þessari tölu eru því ekki hælisleitendur sem hafa komið hingað til lands og sótt um alþjóðlega vernd. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ísland hefur tekið á móti 645 kvótaflóttamönnum frá árinu 1956, þar af 194 síðasta áratuginn. Frá því að ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar samþykkti að verja tveimur milljörðum króna til flóttamannamála í september 2015, m.a. í móttöku flóttafólks og hælisleitenda til Íslands, hafa komið hingað 96 kvótaflóttamenn, allir frá Sýrlandi.

Þegar aðgerðir ríkisstjórnarinnar árið 2015 voru kynntar sagði Sigmundur Davíð að gert væri ráð fyrir því að í kring­um hundrað flótta­menn kæmu til lands­ins á því sama ári, en þá bæði kvótaflóttamenn og þeir sem koma til landsins eftir öðrum leiðum. 

Sýrlensk börn í flóttamannabúðum í Líbanon.
Sýrlensk börn í flóttamannabúðum í Líbanon. AFP

Undirbúningur á næstu móttöku ekki hafinn

Þegar litið er fjölda flóttamanna sem komið hafa til Íslands frá árinu 1956 eru flestir frá Sýrlandi eða 112 en 111 frá króatíska héraðinu Krajina.

Í janúar komu hingað 40 sýrlenskir flóttamenn sem höfðu búið í flóttamannabúðum í Líbanon en samkvæmt upplýsingum frá velferðarráðuneytinu er ekki hafinn undirbúningur á komu næsta hóps þaðan.

Kvótaflóttamenn eru þeir sem stjórn­völd ákveða að taka á móti í samstarfi við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna. Í þessari tölu eru því ekki hælisleitendur sem hafa komið hingað til lands og sótt um alþjóðlega vernd.  

Flóttamenn frá Kosovo koma til Reykjavíkur árið 1999. Alls var …
Flóttamenn frá Kosovo koma til Reykjavíkur árið 1999. Alls var tekið á móti 75 flóttamönnum þaðan það ár. mbl.is/Þorkell Þorkelsson

Tókum fyrst á móti 52 Ungverjum

Samkvæmt yfirliti velferðarráðuneytisins tóku Íslendingar fyrst á móti flóttamönnum í gegnum Flóttamannastofnun SÞ árið 1956 þegar 52 Ungverjar komu hingað. Þremur árum síðar var tekið á móti 32 kvótaflóttamönnum frá Júgóslavíu.

Síðan komu hingað engir flóttamenn í gegnum Flóttamannastofnun SÞ í 20 ár eða til ársins 1979 þegar hingað komu 34 Víetnamar. Árið 1982 komu hingað síðan 26 Pólverjar og átta árum síðar, árið 1990, tóku Íslendingar á móti 30 Víetnömum og svo aftur sama fjölda ári seinna.

Það var síðan árið 1995 sem Flóttamannaráð SÞ sem heitir nú Flóttamannanefnd SÞ var stofnað en síðan þá hefur Ísland tekið á móti 441 kvótaflóttamanni.

Tekið var á móti 40 sýrlenskum flóttamönnum í janúar og …
Tekið var á móti 40 sýrlenskum flóttamönnum í janúar og fengu þeir að hitta forseta Íslands á Bessastöðum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

223 frá Kosovo og Króatíu á níu árum

Tekið var á móti fólki á hverju ári árin 1996 til 2005, þá frá Kosovo og króatíska héraðinu Krajina. Árin 2005 og 2007 var síðan tekið á móti 54 Kólumbíumönnum og árið 2008 29 Palestínumönnum frá Írak.

Árin 2010 og 2012 var alls tekið á móti 15 kvótaflóttamönnum og komu þeir allir frá Afganistan, en á árunum 2014-2015 var tekið á móti fimm manns sem komu frá Simbabve, Úganda, Sýrlandi og Kamerún.

Síðan þá hefur aðeins verið tekið á móti sýrlenskum kvótaflóttamönnum, þar af 15 árið 2015, 56 á síðasta ári og 40 það sem af er 2017.

Reykjavík tekið á móti flestum

Sé móttaka kvótaflóttamanna skoðuð út frá sveitarfélögum má sjá að frá árinu 1996 hefur Reykjavíkurborg tekið oftast á móti flóttamönnum eða átta sinnum og tekið alls á móti 115 manns. Þá hefur Hafnarfjörður tekið þátt í að taka á móti flóttamönnum þrisvar og  Akureyri sömuleiðis.

Önnur sveitarfélög sem hafa tekið á móti kvótaflóttamönnum eru Ísafjörður, Hornafjörður, Blönduós, Fjarðabyggð, Dalvík, Siglufjörður, Reykjanesbær, Akranes, Árborg og Hveragerði.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert