90% vildu afþakka frípóst

Pappírstunnurnar bláu eru fyrir bylgjupappa, fernur, skrifstofupappír og sléttan pappír, …
Pappírstunnurnar bláu eru fyrir bylgjupappa, fernur, skrifstofupappír og sléttan pappír, auk dagblaða og tímarita. mbl.is/Rósa Braga

Samkvæmt núgildandi lögum um meðhöndlun úrgangs hefur Reykjavíkurborg ekki heimild til að veita bláu tunnuna gjaldfrjálst til íbúa. Þá virðist vera að ekkert innan núgildandi reglugerðar um póstdreifingu gefi Reykjavíkurborg eða öðrum sveitarfélögum möguleika á að beita sér varðandi dreifingu fjöl- og frípósts.

„Samkvæmt regluverkinu er sveitarfélögum skylt að innheimta gjöld af íbúum í takt við þann kostnað sem bláa tunnan hefur í för með sér,“ segir Eygerður Margrétardóttir, deildarstjóri hjá umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar.

Mbl.is sagði í morgun frá hugmynd borgarbúa um að útgefendur eða dreifingaraðilar fjölpósts yrðu rukkaðir um „ruslagjald“ vegna pappírsrusls sem fylgir slíkum pósti. Í umsögnum um verkefnið á vefsíðu lýðræðisverkefnisins Hverfið mitt kom einnig fram að margir væru ósáttir við að dreifingaraðilar hundsuðu merkingar íbúa um að viðkomandi afþakkaði frípóst.

Eygerður Margrétardóttir.
Eygerður Margrétardóttir.

Að sögn Eygerðar framkvæmdi Reykjavíkurborg fyrir tveimur árum viðhorfskönnun um úrgangsmál meðal borgarbúa en þar var meðal annars spurt um viðhorf til fjöl- og frípósts. Í ljós kom að 90% svarenda afþökkuðu eða höfðu áhuga á að afþakka slíkan póst.

„Um 20% borgarbúa afþökkuðu fjölpóst og 70% sögðust hafa áhuga á að afþakka hann þannig að það voru í rauninni bara 10% sem vildu þiggja fjölpóst. Það er mikill vilji í samfélaginu til að afþakka þennan fjölpóst en þegar kemur að því að framkvæma virðist það vaxa fólki í augum eða vera flókið.“

Þarf ekki leyfi til að dreifa frípósti

Reykjavíkurborg hafði á þeim tíma áhuga á að gera eitthvað í þessum málum en viðhorfskönnunin var gerð í tengslum við vinnu um aðgerðaráætlun í úrgangsmálum.

„Við fórum að skoða regluverkið og sáum að það þarf ekkert sérstakt leyfi til að dreifa frípósti eða dagblöðum en til að dreifa hefðbundnum pósti þarftu að fá leyfi frá Póst- og fjarskiptastofnun, sem fer með þessi lög um póstþjónustu en það er ekkert í þeim lögum sem skyldar aðila til að virða merkingar þar sem fólk afþakkar fjölpóst.“

Eygerður segir að starfshópurinn hafi kallað til sín tvo stærstu dreifingaraðila fjölpósts á Íslandi og að komið hafi í ljós að hvorugur aðilinn virti merkingar hins. Þá voru einnig dæmi þess að íbúar sem hefðu merkingar beggja fyrirtækja fengju samt fjölpóst, þá líklega frá þriðja aðila.

Mikið virðist vera um að frípóstur endi ólesinn í ruslinu.
Mikið virðist vera um að frípóstur endi ólesinn í ruslinu.

Upp kom sú hugmynd að Reykjavíkurborg gæfi út merkingar sem íbúar gætu nýtt til að afþakka allan fjölpóst en að sögn Eygerðar fékkst aldrei skýrt svar frá dreifingaraðilum um hvort þeir hygðust virða vilja íbúanna. Því varð ekkert úr hugmyndinni og vinnan féll í raun niður.

„Þetta er dálítið flókið mál. Ef regluverkið væri þannig að dreifingaraðilar þyrftu að virða vilja íbúa þá væri þetta betra og svo er líka spurning hvort það ætti að vera skylda að fá leyfi til að dreifa fjölpósti.“

Eins og staðan er í dag virðast sveitarfélögin því lítið geta gert til að koma til móts við íbúa sem þykir óréttlátt að þeir sitji uppi með kostnað sem hlýst af pappírsrusli af frípósti sem þeir hafa lítið sem ekkert val um að fá inn um bréfalúguna.

Eygerður segir það helst vera Póst- og fjarskiptastofnun sem gæti aðhafst í málinu en stofnunin heyrir undir samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og hefur umsjón með framkvæmd fjarskipta- og póstmála á Íslandi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert