Framboðið var vantraust á forystu ASÍ

Ragnar Þór Ingólfsson er nýr formaður VR.
Ragnar Þór Ingólfsson er nýr formaður VR.

Nýr formaður VR segir framboð sitt hafa verið vantraustsyfirlýsingu á forystu ASÍ og félagsmenn VR hafi sent skýr skilaboð með kosningunni að þeir væru honum sammála. Hann segir ekki ríkja traust í samfélaginu að byggja upp norrænt samningamódel á vinnumarkaðinum, svokallað Salek-samkomulag og að hann muni ekki standa með slíkri vinnu. Þetta segir Ragnar Þór Ingólfsson sem vann í dag formannskjör VR og hlaut hann tæplega 63% greiddra atkvæða, en samtals voru greidd 5.706 atkvæði af 33.383 sem eru á kjörskrá.

Ekki traust til að byggja upp norrænt samningamódel

Hann segist hafa lagt upp með ákveðin mál í kosningabaráttu sinni sem hann segir VR og verkalýðshreyfinguna ekki hafa sinnt nógu vel. Nefnir hann sem dæmi verðtrygginguna og segir verkalýðshreyfinguna hafa verið arfaslaka í baráttunni við afnám hennar í samningsgerð sinni.

„Ég vildi hlusta á fólkið, ekki hlusta á hugmyndafræði sem hefur verið óvinsæl mjög lengi,“ segir hann og bætir við að þar eigi hann við Salek-samkomulagið og stefnu ASÍ. „Það er ekki traust í samfélaginu til að byggja upp norrænt samningamódel í ljósi þess að ráðamenn þjóðarinnar hafa verið að hækka mjög ríflega meðan þeir hvetja almenning til hófsemi.“

Ragnar segir að hann tali fyrir stétt með stétt þar sem réttlæti sé fyrir alla. „Við eigum að geta gert miklu betur,“ segir hann um að bæta velferðarkerfið og að það eigi að vera fyrir alla alltaf.

Ragnar Þór segir framboð sitt hafa verið vantraustsyfirlýsingu á forystu …
Ragnar Þór segir framboð sitt hafa verið vantraustsyfirlýsingu á forystu ASÍ. mbl.is/Ernir Eyjólfsson

Gagnrýnir lífeyriskerfið

Ragnar hefur undanfarin ár verið nokkuð gagnrýninn á lífeyriskerfið og segir hann að þar vilji hann að lífeyrissjóðirnir séu notaðir við samfélagslega uppbyggingu, „í stað þess að þurfa að græða á öllu og vera í miklu áhættubraski.“

„Félagsmenn hafa gefið mjög sterkt umboð til að ég beiti mér fyrir þessum málum. Þeir hafa hafnað þessari ytri starfsemi sem hefur verið hjá VR,“ segir hann. Ragnar tekur þó fram að innra starf félagsins sé mjög gott og blómlegt.

Fyrst þarf traust að koma frá stjórnvöldum og atvinnulífinu

Næstu skref eru að hans sögn að melta niðurstöðuna og þann mikla meðbyr sem hann fékk í atkvæðagreiðslunni. Segir hann að svo skýr niðurstaða hafi komið sér á óvart, en við taki svo ársfundur VR og verkskipting stjórnar sem einnig var kosin í þessari kosningu.

Spurður um framhald Salek-samkomulagsins og vinnunnar í kringum það módel segir Ragnar að hann eigi von á breytingum þar, enda VR stærsta verkalýðsfélag landsins. „Úrslitin eru kýrskýr. Ég fer ekki að vinna að norrænu samningamódeli þegar ég er kosinn til að gera það ekki.“ Bætir hann við að slík vinna sé ekki raunhæf meðan hér á landi sé búið við há lánakjör og að stjórnmálamenn styrki ekki grunnþjónustuna betur. „Traustið er ekki til staðar og ekkert bendir til þess að það verði á næstunni. Fyrst þarf traust að koma frá stjórnvöldum og atvinnulífinu,“ segir Ragnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert