Greiði „ruslagjald“ fyrir frípóst

Blöðin virðast sumhver enda í ruslinu án þess að hafa …
Blöðin virðast sumhver enda í ruslinu án þess að hafa nokkurn tímann komið við í bréfalúgum eða póstkössum.

Borgarbúar virðist margir hverjir heldur ósáttir við ruslið sem getur fylgt frípósti á borð við auglýsingabæklinga og fríblöð. Á vefsíðu íbúalýðræðisverkefnisins Hverfið mitt er þeirri hugmynd varpað fram að notkun á svokölluðum bláum tunnum, sem ætlaðar eru fyrir pappír og pappa, verði gjaldfrjáls fyrir íbúa og að fyrirtæki sem „dreifa frípósti“ verði þess í stað rukkuð um „ruslagjald.“

Rúmlega 250 manns hafa þegar stutt verkefnið en á myndum sem bárust mbl.is í gær má sjá heilu bunkana af fríblöðum í almennings- og heimilissorptunnum víðsvegar um miðborgina. Svo virðist sem blöðin fari ekki í öllum tilfellum inn um bréfalúgu eða í póstkassa og sé fleygt ólesnum í eða á tunnurnar.

„Margt fer ólesið í tunnuna“

Í umsögnum um verkefnið á vefsíðu Hverfið mitt  segjast margir ósáttir við að þurfa sífellt að fleygja ólesnum frípósti í pappírstunnuna bláu, jafnvel þó að bréfalúgur séu merktar með skilaboðum um að viðkomandi frábiðji slíkan póst.

Á vefsíðu Reykjavíkurborgar kemur fram að bláu tunnurnar eru tæmdar á um það bil þriggja vikna fresti en grunngjaldið hækkar eftir stærð tunna. Þá þarf að greiða aukalega fyrir aukalosun.

Í hugmyndinni á Hverfið mitt er kallað eftir því að ákveðið gjald verði sett á þá sem „dreifa frípósti“ til að standa straum af kostnaði sem hlýst af sorphirðu og endurvinnslu á pappírnum, til að koma í veg fyrir að sá kostnaður falli á neytendur.

„Við ráðum litlu um hvað kemur inn um bréfalúguna og margt fer ólesið í tunnuna. Þær fyllast fljótt og eru allt of sjaldan tæmdar. Örari tæming eða auka tunna kostar okkur meiri peninga. Þeir sem gefa út þennan póst ættu að bera að minnsta kosti hluta kostnaðar sem fylgir því að eyða öllum þessum pappír,“ segir ein og aðrir taka í sama streng.

Myndirnar sýna heilu bunkana af blöðum í sorptunnum sem tilheyra …
Myndirnar sýna heilu bunkana af blöðum í sorptunnum sem tilheyra borginni eða einstaka heimilum.

„Það væri mun nær að þeir sem kjósa að dreifa óumbeðnum pósti greiddu fyrir förgun hans, að minnsta kosti að hluta.“

Aðrir velta því fyrir sér hversu mikið rusl verður til vegna þessa og sumar vísa til umhverfissjónarmiða.

„Hvað ætli fari mörg tonn af óumbeðnum „fríblöðum“ og ruslpósti ólesin beint í tunnu á dag í Reykjavík?“

Einhverjir eru þá einnig ósáttir við að límmiðar og merkingar á hurðum beri ekki tilskyldan árangur.

„Þrátt fyrir límmiða og merkingar á hurðum streyma bæði fríblöð og auglýsingapóstur inn til okkar allra og fara beina leið í tunnuna sem er iðulega meira en hálf full af pappír sem enginn bað um eða hefur áhuga á.“

Þá finnst öðrum tímabært að skipulagi sé breytt svo að þeir sem vilja fá fríblöð og annan frípóst segi til um það í stað þess að þeir sem ekki vilji slíkt efni þurfi að afþakka það með sérstökum merkingum.

„Löngu tímabært að íbúar borgarinnar þurfi ekki að greiða fyrir óumbeðna pappírssóun. Fólk þurfi að biðja um fríblöð en ekki öfugt.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert