Lést úr hjartaáfalli

Silfra á Þingvöllum.
Silfra á Þingvöllum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Maðurinn sem lést við yfirborðsköfun í Silfru síðasta föstudag lést af hjartaáfalli. Þetta er bráðabirgðaniðurstaða krufningar. Engin merki eru um drukknun. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurlandi.

Maðurinn var bandarískur ríkisborgari sem var fæddur árið 1951.

Laust fyrir 16 á föstudaginn barst Neyðarlínunni útkall en þá hafði manninum verið bjargað á land. Lög­regla og sjúkra­lið fóru þá á vett­vang og þyrla. Um mánuði áður hafði sambærilegt slys orðið í Silfru, en þar lést bandarískur karlmaður á sjötugsaldri.

Greint var frá því sama kvöld að búið væri að loka fyrir köfun í Silfru tímabundið og funduðu stjórnendur Þjóðgarðsins á Þingvöllum, umhverfisráðherra og forsvarsmenn Samgöngustofu saman um breytt verklag og kröfur fyrir köfun um helgina.

Meðal þess sem lagt er upp með er að hver leiðsögumaður sem í gjárn­ar fer má aðeins hafa með sér þrjá kafara í stað fjög­urra áður og í yf­ir­borðsköf­un mega nú sex í stað átta fylgja þeim sem leiðsögn ann­ast.

Opnað var fyrir köfun að nýju á mánudaginn eftir að reglurnar tóku gildi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert