Vilja stækka bannsvæði hópferðabíla

Fyrirhuguð bannsvæði.
Fyrirhuguð bannsvæði. Teikning/Reykjavíkurborg

Stýrihópur, sem skipaður var af umhverfis- og skipulagsráði Reykjavíkurborgar, hefur lagt til akstursleiðir hópferðabíla og staðsetningar safnastæða í miðborginni.

Kemur þetta fram á heimasíðu borgarinnar en í stýrihópinn voru skipuð þau Gísli Garðarsson, Hjálmar Sveinsson og Hildur Sverrisdóttir. Halldór Halldórsson tók sæti Hildar í hópnum í byrjun marsmánaðar, eftir að hún tók sæti á Alþingi.

Stýrihópurinn leggur til að hópbifreiðum verði óheimilt að aka um götur innan þeirra svæða sem skyggð eru á myndinni sem sjá má hér að ofan. Bannsvæði fyrir hópbifreiðar lengri en 8 metra verði þá stækkað frá Lækjargötu og vestur að Ægisgötu. Bannsvæðið afmarkist af Tryggvagötu og Túngötu/Suðurgötu/Vonarstræti að sunnanverðu.

Um 45% gistirýma innan svæðisins

Safnstæðum fyrir hópbifreiðar verði fjölgað úr 16 (á 12 stöðum) í 27 (á 15 stöðum). Safnstæði við Hverfisgötu, Vonarstræti og Eiríksgötu verða staðsett í samræmi við akstursstefnur hópbifreiða.

Stýrihópur fól VSÓ Ráðgjöf að greina tillögu Samtaka ferðaþjónustunnar og Íbúasamtaka miðborgar, greina aðgengi að safnstæðum m.v. staðsetningu gistirýma o.fl. þætti. Stýrihópurinn fékk VSÓ Ráðgjöf til að vera hópnum innan handar við mat á öðrum útfærslum sem greindar voru með sama hætti. Í greiningunni er horft á gististaði með fleiri en 10 gistirými sem staðsett eru á svæðinu norðan Hringbrautar og vestan Lönguhlíðar/Nóatúns. Innan þessa svæðis eru um 10.100 gistirými, um 45% skráðra gistirýma á höfuðborgarsvæðinu.

Ábendingum og athugasemdum skal skila til umhverfis- og skipulagssviðs fyrir 27. mars næstkomandi á netfangið usk@reykjavik.is með efnislínunni: Tillaga stýrihóps um akstur hópbifreiða í miðborginni. Í kjölfarið verður endanleg tillaga stýrihóps lögð fyrir umhverfis- og skipulagsráð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert