Brugghús bætir við ölstofu

Ölstofa The Brothers Brewery í Vestmannaeyjum. Eigendurnir og starfsmennirnir frá …
Ölstofa The Brothers Brewery í Vestmannaeyjum. Eigendurnir og starfsmennirnir frá vinstri: Hlynur Vídó Ólafsson, Hannes Kristinn Eiríksson, Kjartan Vídó Ólafsson og Jóhann Ólafur Guðmundsson. Ljósmynd/Ólafur Einar Lárusso

Örbrugghúsið The Brothers Brewery í Vestmannaeyjum opnar nýja ölstofu í Eyjum á morgun í tengslum við aukna framleiðslugetu fyrirtækisins. „Nú getum við tekið á móti hópum, sem vilja kynna sér framleiðsluna, og selt Eyjamönnum góðan bjór,“ segir Kjartan Vídó Ólafsson, einn eigenda.

Upphafið má rekja til þess að Kjartan Vídó og Jóhann Ólafur Guðmundsson byrjuðu að brugga bjór 2012. Fengu þeir bræður sína, Hlyn Vídó og Davíð, inn í hópinn og nafnið The Brothers Brewery varð til. „Nafnið vísaði til okkar bræðranna en Davíð er hættur og Hannes Kristinn Eiríksson, mágur Jóa, kom í staðinn,“ segir Kjartan. „Þetta er því áfram mjög fjölskylduvænt fyrirtæki.“

Kjartan segir að til að byrja með hafi hugmyndin verið sú að brugga bjór og selja hann á veitingastaðnum Einsa kalda í Vestmannaeyjum og fengu þeir framleiðsluleyfi í byrjun árs 2016. „Síðan vatt þetta upp á sig og eftir að við fengum fyrstu verðlaun fyrir bjór ársins á Bjórhátíð Íslands á Hólum í júní í fyrra fóru hjólin að snúast enn hraðar. Síðan höfum við selt bjór á fjórum til sex veitingastöðum í Reykjavík.“

Flöskulína bætist við

Brugghúsið keypti nýverið 500 lítra bruggeiningu og gerjunartanka frá Kína auk flöskulínu. Þar með eru sex 500 lítra tankar til staðar og með flöskulínunni aukast möguleikar á að selja bjórinn á fleiri veitingastöðum og í Vínbúðunum. „Þegar tækin verða komin í notkun getum við bruggað 500 lítra í einu í staðinn fyrir 150 lítra,“ segir Kjartan. „Afköstin aukast því mikið og það verður auðveldara fyrir okkur að fara inn á nýja staði.“ Hann bætir við að þegar þeir hafi lært vel á nýju tækin, eftir um mánuð eða tvo, sé ætlunin að setja bjór á markað í Vínbúðunum.

Búið er að setja upp nýju tækin og nýr kafli …
Búið er að setja upp nýju tækin og nýr kafli að hefjast.


Kjartan segir að þeir hafi bruggað 12 til 15 mismunandi tegundir og þar af nokkrar prufuuppskriftir sem ekki hafi verið bruggaðar aftur. „Við bjóðum upp á sex tegundir í ölstofunni okkar,“ segir hann og leggur áherslu á að ekki sé alltaf um sömu tegundirnar að ræða því tegundirnar séu misjafnar eftir árstíðum.

Félagarnir hafa staðið í rekstrinum sjálfir án utanaðkomandi vinnuafls. „Við höfum þjarkast áfram í þessu og eiginkonurnar hafa staðið þétt við bakið á okkur, leyft okkur að sinna þessu áhugamáli og lagt sitt af mörkum við opnunina á ölstofunni,“ segir Kjartan.

Ölstofan The Brothers Brewery er í húsinu Baldurshaga í miðbæ Vestmannaeyja. Þar er leyfi fyrir um 70 gesti og boðið verður upp á yfir 30 tegundir af bjór. „Um 70% af bjórnum hafa ekki fengist í Eyjum þannig að við komum með nýjar tegundir og aukum flóruna fyrir gesti,“ segir Kjartan.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert