Hefur lifað við sífelldar hótanir

Konan þurfti að yfirgefa heimili fjölskyldunnar í lögreglufylgd eftir 17 …
Konan þurfti að yfirgefa heimili fjölskyldunnar í lögreglufylgd eftir 17 ára sambúð. mbl.is/G.Rúnar

Fyrrverandi eiginkona íslenska mannsins sem handtekinn var í Austin, höfuðborg Texas í Bandaríkjunum aðfaranótt fimmtudags í síðustu viku vegna gruns um að hafa ráðist á íslenska kærustu sína tjáir sig um mál hans í opinni færslu á Facebook-síðu sinni.

Rifjar hún m.a. upp er hann komst nærri því að kyrkja hana í London fyrir um áratug síðan og stóð síðan bak við hurð með reiddan hnefa þegar hótelstarfsmaður mætti á svæðið. Þá hafi hann elt hana um allt hús eru þau voru í Barcelona og gengið í skrokk á henni fyrir framan börn þeirra.

„Hann kýldi mig svo fast og mikið að það blæddi út um eyrun á mér, ég var með innvortis eymsli í maganum í marga daga á eftir og ég var öll marin og blá,“ segir hún í færslunni. Misþyrmingarnar séu þó mun fleiri og ósjaldan hafi hann ráðist á hana fyrir framan börn þeirra.

Fjölskyldan er niðurbrotin

Mágur eiginkonunnar fyrrverandi, sem ekki vill láta nafns síns getið í fjölmiðlum vegna fjölskyldutengslanna, segir í samtali við mbl.is að mágkonu sinni hafi borist hótanir frá manninum eftir að hún birti færsluna. „Hann er búinn að hóta henni meiðyrðamálum og öllu mögulegu,“ segir hann.

„Þessi fjölskylda er niðurbrotin vegna þessa alls,“ segir hann og kveður fjölskyldunni lengi hafa verið kunnugt um ofbeldi sem hafi verið samfara lyfja- og áfengisnotkun mannsins. Hann segir að þegar mágkona sín hafi loks fundið styrk til að yfirgefa manninn eftir 17 ára sambúð, hafi hún þurft að yfirgefa heimili sitt í lögreglufylgd. Henni var þá fenginn neyðarhnappur til að ganga með og slíkan hnapp fær fólk ekki að ástæðulausu.

Mágurinn segir áreiti og hótunum í garð mágkonu sinnar heldur ekki hafa lokið þegar þau slitu samvistum. „Hún hefur þurft að lifa við sífelldar ógnanir af hans hálfu. Hann hefur í tvígang ráðist inn á heimili einnar systur hennar með þeim afleiðingum að kalla hefur þurft til lögreglu.“

Hann segir fjölskylduna hafa verið í skýrslutökum nú síðast í vikunni vegna árása mannsins á heimili konunnar.

Telur kerfið hafa brugðist 

Mágurinn er ekki sáttur við hvernig kerfið hefur tekið á málinu. Maðurinn hafi náð að múlbinda fyrrverandi eiginkonu sína fjárhagslega. „Hún hefur ekki fengið krónu í meðlagsgreiðslur þessi ár og og hefur þurft að reiða sig á velvild aðstandenda, til að draga fram lífið með einhverjum hætti.“ Þetta sé þrátt fyrir að fjárhagsstaða hjónanna fyrrverandi hafi verið sterk fyrir tilstilli fjölskyldu konunnar. Þá hafi Hæstiréttur þurft að skipa skiptastjóra yfir búi hjónanna og þeim slitum sé ekki nándar nærri lokið.

„Barnaverndaryfirvöld [...] hafa líka gjörsamlega brugðist í máli barna þeirra,“ segir mágurinn við mbl.is, en hann hefur einnig tjáð sig um málið á samfélagsmiðlum.

Þar segir hann íslenskt stjórnkerfi hafa um áraraðir brugðist börnum og fyrrverandi eiginkonu mannsins, „þrátt fyrir margítrekaðar aðkomur sýslumanns, lögreglu og barnaverndarnefndar [...] að málum honum tengdum. Það væri ótrúleg kaldhæðni ef yfirvöld í Texas eru í betur stakk búin en hin íslensku til að láta [hann] gjalda gjörða sinna, ekki vitandi milligramm af þeim þjáningum sem hann hefur valdið fjölskyldu sinni og aðstandendum hér á landi í að verða tvo áratugi,“ segir í færslunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert