Umdeildur fyrirlestur til Íslands

Þórdís Elva Þorvaldsdóttir og Tom Stranger sögðu frá nauðguninni á …
Þórdís Elva Þorvaldsdóttir og Tom Stranger sögðu frá nauðguninni á TED-fyrirlestri. Skjáskot/TEDx

Mótmæli fóru fram fyrir utan staðinn Royal Festival Hall í Soutbank Center í London í gær vegna fyrirlestrar Þórdísar Elvu Þorvaldsdóttur og Ástralans Tom Stranger sem þar var haldinn.

„Það er nauðgari í byggingunni,“ hrópuðu mótmælendur er þeir lokuðu innganginum að höllinni í stutta stund. „Út með nauðgarann“.

Þetta kemur fram í frétt BBC.

TED-fyrirlestur Þórdísar Elvu og Stranger vakti mikla athygli undir lok síðasta árs. Þar gerðu þau tvö upp fortíðina en þegar Þórdís var 16 ára nauðgaði Stranger henni þegar þau voru enn kærustupar.

Áður hafði verið hætt við fyrirlesturinn á ráðstefnunni Women of the World í London um síðustu helgi vegna mótmæla.

Þórdís Elva Þorvalsdóttir.
Þórdís Elva Þorvalsdóttir.

Hagnist ekki á nauðguninni

Ákveðið var að halda fyrirlesturinn í Royal Festival Hall eftir að skipuleggjendur Women of the World sögðu umræðuna of mikilvæga til að hún yrði þögguð niður.

„Nauðgun er eitt af þessum málefnum sem þarf að ræða og við þurfum að breyta umræðunni um hana því sjónum er of oft beint eingöngu að fórnarlömbum nauðgunar heldur en þeim sem nauðga,“ sagði Jude Kelly, listrænn stjórnandi Soutbank Centre.

Diane Langford, einn af mótmælendunum, fordæmdi ákvörðunina. „Ég er hérna vegna þess að finnst nauðgari vera að hagnast á nauðguninni,“ sagði Langford en hefur sjálfri verið nauðgað. „Ég trúi því ekki að nauðgarar eigi að fá að sleppa við refsingu.“

Skipuleggjendur viðburðarins segja að Stranger fái ekki borgað fyrir að stíga á svið og hann hefur sjálfur heitið því að gefa ágóðann af bókinni sem hann og Þórdís hafa skrifað til góðgerðarmála.

Salurinn í Kópavogi.
Salurinn í Kópavogi. mbl.is/Golli

Fyrirlestur á Íslandi 22. mars 

Bókin, Handan fyrirgefningar, kemur út hér á landi á morgun. Af því tilefni halda Þórdís og Stranger fyrirlestur í Salnum í Kópavogi miðvikudaginn 22. mars klukkan 20.

Í tilkynningu frá Forlaginu kemur fram að fyrirlesturinn hafi verið frumfluttur fyrir fullu húsi í Óperuhúsinu í Sydney fyrr í mánuðinum og hefur síðan þá verið fluttur í hinum ýmsu borgum Ástralíu og Bretlands.

„Hér er ekki um að ræða sama fyrirlestur og þann sem sýndur var af TED í febrúar en á þann fyrirlestur hefur nú verið horft yfir 2,7 milljón sinnum. Fyrirlesturinn í Salnum er byggður á sögu Þórdísar og Tom ásamt bókinni en fer víðar; inn á hugsjónir þeirra og markmið með því að deila sögu sinni og umræðunni sem þau vona að hún kveiki,“ segir í tilkynningunni.

Aðgangur er ókeypis en um takmarkaðan sætafjölda er að ræða. Fólk er beðið um að tryggja sér miða hér.

Gert er ráð fyrir að fyrirlesturinn og umræðurnar taki rúman klukkutíma. Diljá Ámundadóttir stjórnar umræðum. Viðburðurinn fer fram á ensku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert