Vilja skoða að banna hjólreiðar á fjölakreina vegum í þéttbýli

Slysið átti sér stað rétt ofan Ártúnsbrekku.
Slysið átti sér stað rétt ofan Ártúnsbrekku. mbl.is/Rax

Rannsóknarnefnd samgönguslysa hefur beint því til innanríkisráðuneytisins að taka til skoðunar að banna hjólreiðar á fjölakreina vegum í þéttbýli þar sem umferðarþungi og hraði er mikill.

Þetta kemur fram í skýrslu nefndarinnar um banaslys á Vesturlandsvegi 21. desember 2015, þar sem bifreið ók aftan á hjólreiðamann. Maðurinn hlaut banvæna áverka við áreksturinn.

Í skýrslunni er einnig lagt til að ráðuneytið taki reglugerð um gerð og búnað reiðhjóla til endurskoðunar og að Samgöngustofa taki það upp með fyrirtækjum sem stunda skoðun á ökutækjum að fylgjast með því að aukahlutir innan á eða innan við framrúðu og fremstu hliðarrúðu takmarki ekki útsýni ökumanns.

Slysið bar að um kl. 6.30 á mánudagsmorgni, vestan Höfðabakka. Í skýrslunni segir að myrkur hafi verið úti, frost, lítill vindur og engin ofankoma.

„Slysið bar að með þeim hætti að hjólreiðamaður hjólaði inn á veginn, annaðhvort frá bensínstöð sem þarna er eða frá stíg við strætisvagnabiðstöð örlítið austar,“ segir í skýrslunni. „Á sama tíma var leigubifreið ekið upp Ártúnsbrekku. Ökumaður bifreiðarinnar varð  hjólareiðamannsins ekki var fyrr en rétt áður en hann ók aftan á hjólreiðamanninn með þeim afleiðingum að hjólreiðamaðurinn kastaðist upp á framrúðu bifreiðarinnar og þaðan í götuna og hlaut banvæna áverka.“

Hjólareiðamaðurinn hlaut lífshættulega fjöláverka, m.a. á höfði og hrygg en ökumann og farþega í bifreiðinni sakaði ekki. Í skýrslunni kemur fram að smellan sem festi ólina á hjálmi hjólreiðamannsins þoldi ekki álagið við höggið þegar hann skall á bifreiðinni eða götunni og brotnaði.

Um ökutækið segir m.a. að þrír hlutir hafi byrgt ökumannni sýn fram á veginn; aksturstölva, verðskrá og GPS-tæki. Ætlað er að ökumaðurinn hafi verið á um 90 km/klst. en hann hafði verið á vakt í rúma 9 tíma.

Í tillögum rannsóknarnefndarinnar segir m.a. að mikil hætta sé á að afleiðingar áreksturs milli hjólreiðamanns og bifreiðar verði mjög alvarlegar þegar ökuhraði er mikill. Eins skapi mikill munur á hraða farartækja aukna hættu á slysum.

„Í 25. grein sáttmála Sameinuðu þjóðanna um umferð á vegum segir að banna skuli umferð gangandi vegfarenda, reiðhjóla, léttra bifhjóla o.fl. á hraðbrautum og sams konar vegum. Líkja má sumum einstökum stofnbrautum á höfuðborgarsvæðinu við hraðbrautir, að minnsta kosti á köflum. Rannsóknarnefnd samgönguslysa beinir þeirri tillögu til innanríkisráðuneytisins að taka til skoðunar að hjólreiðar verði bannaðar á fjölakreina vegum í þéttbýli þar sem umferðarþungi og hraði er mikill.“

Tillögur og ábendingar nefndarinnar má finna í skýrslunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert