„Erum að vinna á fullu að lausnum“

United Silicon í Reykjanesbæ.
United Silicon í Reykjanesbæ. Ljósmynd/United Silicon

„Við erum að vinna á fullu að lausnum á þessum vandamálum. Það er í sjálfu sér ekkert sem breytist við þetta,“ segir Kristleifur Andrésson stjórnandi öryggis- og umhverfismála hjá United Silicon.

Umhverfisstofnun hefur hafnað ósk United Silicon um sex mánaða frest til að bæta úr frávikum.

Vilja leysa málið „mjög fljótt“

Kristleifur segir það vissulega vera vonbrigði að hafa ekki fengið sex mánaða frest til að leysa þau vandamál sem Umhverfisstofnun hefur bent á varðandi lyktarmengun úr verksmiðjunni en tekur fram að verksmiðjan sé staðráðin í að leysa málið „mjög fljótt“.

Verksmiðjan hefur haft samband bæði við erlenda og innlenda aðila um aðstoð og fundaði til að mynda í morgun við aðila innanlands um að reyna að finna lausnir á lyktarvandamálinu.

„Þetta er stór og virtur aðili innanlands, sem hefur mikla reynslu af svona málum,“ sagði Kristleifur en bætti við að ekki væri tímabært að nefna hver hann er.

United Silicon í Reykjanesbæ.
United Silicon í Reykjanesbæ. Ljósmynd/United Silicon

Nýr hreinsibúnaður kominn 

„Það er í sjálfu sér búið að leysa hluta af vandamálunum en við erum að vinna áfram í þessu. Við erum að fá nýjan búnað sem á eftir að hjálpa okkur,“ segir hann og á þar við hreinsibúnað. Einnig er verið að vinna í endurbótum á þeim búnaði sem er fyrir.

Spurður hvort tilmæli Umhverfisstofnunar eigi rétt á sér, segist hann ekki ætla að leggja mat á það. „Íbúar eru óhressir með lykt og við þurfum að bregðast við því. Við erum að vinna að öllum krafti við að leysa þessi vandamál.“

Ljósmynd/United Silicon

Funda vegna bréfsins í næstu viku

Umhverfisstofnun hótaði því að stöðva rekstur verkmiðjunnar ef ekki yrði ráðist í umbætur „tafarlaust“. Kristleifur vonar að úrbæturnar sem núna eru í gangi verði til þess að verkmiðunni verði ekki lokað.

Hann býst við að fundað verði vegna viðbragða við bréfi Umhverfisstofnunnar í næstu viku.

Umhverfisstofnun ætlar að leita eftir tilboðum í verkfræðilega úttekt á hönnun og rekstri verksmiðjunnar vegna ítrekaðra frávika, m.a. varðandi reykhreinson og ólykt þar sem 300 kvartanir hafa borist frá íbúum á þeim 4 mánuðum sem verksmiðjan hefur verið starfrækt. 

„Það er ekki okkar að hafa skoðun á því úrræði sem Umhverfisstofnun setur upp. Við erum að leita út fyrir landssteinana með aðstoð  og vonumst til að vera búnir að leysa þetta mál áður en til þessarar úttektar komi. Við viljum leysa þetta upp á eigin spýtur hratt og vel.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert