Gunnar fann 80 ára gömul ástarbréf

Ástarbréfin sem Gunnar Viðar fann í veggnum heima hjá sér.
Ástarbréfin sem Gunnar Viðar fann í veggnum heima hjá sér. mbl.is/Sigurður Aðalsteinsson

Ungur athafnamaður á Reyðarfirði fann tvö gömul ástarbréf inni í húsvegg á húsi sem hann er að gera upp í bænum. Í bréfunum biður maður konu fyrirgefningar en bréfin voru skrifuð með þriggja ára millibili árin 1938 og 1941, eða fyrir tæplega 80 árum.

„Það er svolítið sérstök upplifun að finna svona. Það er mjög líklega ekki á lífi þetta fólk sem átti þessi ástarbréf,“ segir Gunnar Viðar Þórarinsson í samtali við mbl.is.

„Mér finnst svolítið merkilegt að þetta sé búið að vera þarna allan þennan tíma. Það er búið að vera svakalega margt fólk í þessu húsi.“

Fyrst var greint frá þessum áhugaverða fundi á vefsíðu Austurfréttar.

Að sögn Gunnars Viðars hafa fleiri munir fundist inni í húsvegg á húsinu, þar á meðal tóbaksumbúðir, pípuhaus, kleinujárn, spil og lyfjaglas með svörtum pillum.

Gunnar Viðar Þórarinsson hjá mununum sem hann fann.
Gunnar Viðar Þórarinsson hjá mununum sem hann fann. mbl.is/Sigurður Aðalsteinsson

Afkomendur vilja skoða munina

Gunnar er fæddur og uppalinn í Skagafirði.  Hann hefur búið á Reyðarfirði frá árinu 2008, líkar þar mjög vel við sig og segist ekkert vera á förum þaðan.

Hann keypti húsið árið 2010 en það var byggt árið 1922 og var fullklárað þremur árum síðar. Lengst af var húsið í eigu sömu ættarinnar. Að sögn Gunnars hafa afkomendur fólksins sem bjó þar haft samband við hann vegna munanna sem fundust, þar á meðal bréfanna, og vilja fá að skoða. 

Húsið sem Gunnar er að gera upp.
Húsið sem Gunnar er að gera upp. mbl.is/Sigurður Aðalsteinsson

Mikill andstæðingur tóbaks

Sjálfur telur Gunnar að heppni fylgi húsinu. „Það hefur ýmis gæfa runnið í hendurnar á mér eftir að ég flutti í þetta hús. Ég hef nú ekki reynt að trúa á eitthvað yfirnáttúrulegt í því en maður reynir að tengja þetta við eitthvað.“

Hann segir sérstaklega merkilegt að hafa fundið marga muni tengda tóbaki í húsinu því sjálfur er hann mikill andstæðingur tóbaks. Hann rekur rafrettufyrirtækið Djákninn og kveðst meðal annars nota það til að berjast gegn tóbaksnotkun almennings.

Spurður segir hann að frumkvöðull fyrirtækisins hafi dregið hann inn við stofnun þess, því sjálfur ætlaði hann aðeins að leggja fram stofnfé í reksturinn.

„Þegar við opnuðum fyrstu búðina á Akureyri 21. júlí síðastliðinn var komin talsverð röð og undirtektirnar voru mjög miklar. Fólk sem var búið að fikta við þetta fékk loksins ráðgjöf og alvöru úrval. Við erum ekki bara að selja rafretturnar heldur erum við að veita þannig þjónustu að við viljum að fólk hætti að reykja af því að það er markmiðið hjá okkur,“ útskýrir hann.

Hinn 1. febrúar á þessu ári var önnur verslun opnuð í Reykjavík, auk þess sem þriðja verslunin er starfrækt á Reyðarfirði.

Munirnir sem um ræðir. Þar kennir ýmissa grasa.
Munirnir sem um ræðir. Þar kennir ýmissa grasa. mbl.is/Sigurður Aðalsteinsson

„Íþyngjandi umhverfi“

Gunnar, sem einnig rekur fyrirtækið Snjallviðgerðir, er ósáttur við að stjórnvöld séu að reyna að setja fram ný lög um rafrettur. „Þau ætla að setja þetta í ramma sem þóknast okkur illa. Þetta er íþyngjandi umhverfi,“ segir hann og tekur fram að allir njóti góðs af rafrettum, bæði fyrirtæki hans, viðskiptavinirnir og samfélagið.

Hann bendir á nýlega könnun á þjóðhagslegum kostnaði vegna reykinga. Þar kemur fram að samkvæmt grófum tölum hafi 350 til 390 manns dáið árið 2015 vegna beinna og óbeinna reykinga hér á landi og að þjóðhagslegur kostnaður hafi þetta ár verið á bilinu 18 til 86 milljarðar króna.

„Ég trúi ekki að fólk ætli að láta þetta viðgangast og setji rafrettur í sama lagaumhverfi og tóbak,“ bætir Gunnar við og undirstrikar að ekkert tóbak sé í rafrettunum sem hann selur. „Ég vil að allir hætti að reykja, hvort sem ég hef hag af því eða ekki. Ísland stendur á tímamótum því við erum komin með alvöru hjálpartæki til að gera Ísland reyklaust.“

Gunnar er á móti því að lög verði sett á …
Gunnar er á móti því að lög verði sett á rafrettur. Mynd/Wikipedia

Pabbi hætti á einni viku

Hann nefnir að mjög margir hafi hætt að reykja með aðstoð rafrettna með nikótíni, þar á meðal faðir hans sem hafi reykt alla sína ævi. Það hafi aðeins tekið hann eina viku. Þess vegna segir hann leiðinlegt að hlusta á neikvæða umræðu um rafrettur, m.a. frá Krabbameinsfélagi Íslands. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert