Kynna nýja 122 km Kröflulínu 3

Línan á að liggja frá Kröflu niður í Fljótsdal.
Línan á að liggja frá Kröflu niður í Fljótsdal. Mynd/Efla

Skipulagsstofnun hefur birt frummatsskýrslu um Kröflulínu 3 frá Kröflu niður í Fljótsdal, en það er Landsnet sem lagði skýrsluna fram. Um er að ræða 220 kV raflínu frá nýju tengivirki við Kröflustöð í gegnum Skútustaðahrepp, Fljótsdalshérað og Fljótsdalshrepp að tengivirkinu við Fljótsdalsstöð. Áætluð lengd línunnar er 122 kílómetrar og er áformað að hún liggi að mestu samsíða Kröflulínu 2.

Fram kemur á vef Skipulagsstofnunar að kynningartími verði frá 16. mars til 5. maí, en á þeim tíma mun Landsnet meðal annars halda fundaröð í Skútustaðahreppi, Egilsstöðum og í Reykjavík.

Undirbúningur verkefnisins hefur staðið í nokkur ár, en tillaga að matsáætlun var kynnt í ársbyrjun 2013 og samþykkt síðar sama ár af Skipulagsstofnun með athugasemdum.

Í mati á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar er loftlína aðalvalkostur. Jafnframt er lagt fram mat á nokkrum jarðstrengskostum á línuleiðinni, m.a. á um 1.300 m löngum kafla þar sem línan þverar Jökulsá á Fjöllum innan Vatnajökulsþjóðgarðs.

Skipulagsstofnun hefur óskað eftir að eftirtaldir aðilar veiti umsögn um matið: Fljótsdalshérað, Fljótsdalshreppur, Skútustaðahreppur, Ferðamálastofa, Fiskistofa, Heilbrigðiseftirlit Austurlands, Heilbrigðiseftirlit Norðurlands eystra, Landgræðsla ríkisins, Minjastofnun Íslands, Náttúrufræðistofnun Íslands, Orkustofnun, Umhverfisstofnun, Vatnajökulsþjóðgarður. Frestur þeirra til að skila umsögnum til Skipulagsstofnunar er til 10. apríl 2017.

Hægt er að nálgast skýrsluna í heild sinni hér.

Kröfluvirkjun
Kröfluvirkjun mbl.is/GSH
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert