Lömbin komu öllum á óvart

Ætli þetta séu ekki fyrstu lömbin þetta vorið.
Ætli þetta séu ekki fyrstu lömbin þetta vorið. Ljósmynd Sofia Dalman

Ær á bænum Vindheimum í Skagafirði kom eigendum sínum heldur betur í opna skjöldu þegar þeir fóru að gefa fénu í gær því hjá henni voru tvö borin. Hafði ærin verið lambfull án þess að nokkur hefði hugmynd um. Um sex vikur eru þar til sauðburður hefst.

Sofia Dalman, tal- og heyrnarfræðingur, býr að Vindheimum, og í samtali við mbl.is í morgun segir hún að þeim hafi heldur betur brugðið við enda langt í sauðburður hefjist. „Þetta kom algjörlega á óvart,“ segir Sofia en ærin var úti líkt og annað sauðfé þessa dagana.

Annað lambið var hressara en hitt en að sögn Sofiu heilsast þeim báðum vel í dag og ánni einnig. 

Sauðburður hefst yfirleitt fyrrihluta maí, en ærnar ganga með lömbin í 143 daga, stundum 2 dögum lengur eða skemur. Sofia segir því ljóst að ærin hafi laumast eitthvað undir lok október án vitundar eigenda sinna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert