Safnar fyrir veika vinkonu

Aníta og fjölskylda hennar búa á Akranesi.
Aníta og fjölskylda hennar búa á Akranesi. mbl.is/Árni Sæberg

Pauline McCarthy, sem býr á Akranesi, hefur hrundið af stað söfnun fyrir vinkonu sína Anítu Gunnarsdóttur, sem er sex barna móðir og á við alvarleg veikindi að stríða. 

Tvö elstu börn Anítu, sem eru 25 ára og 22 ára, eru með sérþarfir og búa þau hjá Anítu, eiginmanni hennar og yngstu þremur stúlkum þeirra sem tíu ára gamlir þríburar.

Þríburarnir fæddust fyrir tímann og hafa tveir þeirra glímt við heilsufarsvandamál frá fæðingu.

Skessuhorn greindi frá þessu. 

Á vefsíðunni Gofundme.com, þar sem leggja má söfnuninni lið, segir McCarthy frá því að Aníta hafi greinst með góðkynja heilaæxli árið 2015. Ákveðið var að hún færi ekki í aðgerð vegna þess að það var góðkynja og á svæði sem er mjög viðkvæmt og hefur áhrif á sjón- og hreyfisvæði í heilanum.

Aníta Gunnarsdóttir.
Aníta Gunnarsdóttir. Ljósmynd/Af Facebook-síðu Anítu

Laseraðgerð í London 

Síðar þetta ár kom í ljós að æxlið var byrjað að stækka og valda Anítu miklum verkjum sem urðu til þess að hún þurfti oft að leggjast inn á sjúkrahús.

Talið var of áhættusamt að framkvæmda á henni heilaskurðaðgerð og því var ákveðið að hún færi í laseraðgerð í London í október í fyrra. Hún átti að fara í aðra laseraðgerð í síðasta mánuði en íslensk stjórnvöld höfðu ekki fjármagn til að senda hana í aðgerðina. Þess vegna þarf Aníta og fjölskylda hennar að bíða þangað til ágúst eftir að því að Landspítalinn fær afhentan nýjan jáeindaskanna.

Óttast blindu eða lömun

Að sögn McCarthy hefur Aníta miklar áhyggjur af því að þurfa að fara í áhættusama heilaskurðaðgerð ef í ljós kemur að laseraðgerðin í London heppnaðist ekki. Óttast hún að verða blind eða lömuð. Þess vegna langar hana í frí með þríburunum sínum til Lególands í Danmörku.

Þríburarnir sem eru tíu ára.
Þríburarnir sem eru tíu ára. Ljósmynd/Af vefsíðunni Gofundme.com

Á kafi í skuldum 

„Aníta hefur átt við heilsufarsvandamál að stríða í mörg ár en samt hefur hún aðstoðað og litið eftir mjög mörgum. Hún meira að segja hjálpaði til við að innleiða mataraðstoð á Akranesi sem hún rak í mörg ár en varð að hætta árið 2015 þegar heilaæxlið byrjaði að valda henni svo miklum vandamálum að hún gat ekki haldið áfram,“ skrifar McCarthy og bætir við að eiginmaður Anítu hafi fengið hjartaáfall árið 2014, þegar hann var aðeins 38 ára gamall.

„Því miður hefur fjölskyldan verið á kafi í skuldum síðan hrunið varð 2008 og laun eiginmanns hennar og örorkubætur Anítu duga ekki til að borga fyrir meira en grunnþarfir. Þess vegna langar mig að hjápa henni við að safna peningum sem fjölskyldan þarf á að halda.“

Vonast hún til að tæpar 800 þúsund krónur safnist fyrir byrjun ágúst.  

300 þúsund krónur hafa safnast

Pauline McCarthy segir í samtali við mbl.is að söfnunin hafi gengið vel. Þegar hún vaknaði í morgun var söfnunin komin í 2.200 pund, eða tæpar 300 þúsund krónur.

Um þrjár vikur eru síðan söfnunin hófst og segir McCarthy að Anita hafi fyrst um sinn ekki verið á því að greina opinberlega frá veikindum sínum. 

Sjálf flutti McCarthy til Akraness fyrir ellefu árum og kynntist hún Anítu fljótlega eftir það.

Áttu von á því að það takist að safna nægu fjármagni í tæka tíð?

„Ég vona virkilega að við náum því. Ég er sannfærður um að okkur takist það,“ segir hún og er afar ánægð með stuðninginn sem hún hefur fengið við söfnuninni.

Auk vefsíðunnar  Gofundme.com er hægt að leggja söfnuninni lið hér:

Banki nr: 0186 - 15 - 630288
Kt: 190660 - 2309

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert